Osimhen fer til Lundúna - Tuchel aftur til Englands - Zidane til Bayern? - Bayern og Liverpool berjast um Alonso
banner
   fös 08. desember 2023 16:23
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kolbeinn fékk rautt á bekknum - „Óþarfi hjá dómaranum"
Hefur fulla trú á því að Lyngby fari í undanúrslitin
Kolbeinn Birgir FInnsson.
Kolbeinn Birgir FInnsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lyngby fagnar marki.
Lyngby fagnar marki.
Mynd: Lyngby
Kolbeinn hefur leikið afar vel í Danmörku.
Kolbeinn hefur leikið afar vel í Danmörku.
Mynd: Lyngby
Draumurinn er að komast á EM.
Draumurinn er að komast á EM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kolbeinn Birgir Finnsson hefur átt afar gott tímabil með Lyngby í Danmörku. Hann er á meðal bestu vinstri bakvarða dönsku úrvalsdeildarinnar.

Hinn 24 ára gamli Kolbeinn er með tvö mörk og tvær stoðsendingar á tímabilinu. Lyngby er í sjöunda sæti dönsku deildarinnar en hún er komin í vetrarhlé.

Það er bara einn leikur eftir fyrir áramót en sá leikur er gegn Fredericia í danska bikarnum. Það er seinni leikur liðanna í átta-liða úrslitunum en fyrri leikurinn endaði með 3-2 sigri Fredericia. Í þeim leik fékk Kolbeinn að líta rauða spjaldið en hann fékk seinna gula spjaldið er hann var farinn út af.

„Ég var á gulu spjaldi, kom út af og var eitthvað svekktur út í sjálfan mig og stöðuna. Ég sparkaði í einhverja tösku þarna og dómarinn gaf mér gult spjald fyrir það," segir Kolbeinn við Fótbolta.net en hann er á því máli að þetta hafi verið óþarfi hjá dómaranum.

„Já, mér fannst þetta óþarfi hjá dómaranum. En ef reglurnar eru svona þá get ég ekki kvartað og þarf bara að taka þetta á mig."

Hann missir af seinni leik liðanna sem fer fram á sunnudaginn en hann hefur fulla trú á að hið mikla Íslendingalið Lyngby muni bera sigur úr býtum og komast í undanúrslitin.

„Við erum enn í bullandi séns og ég vona innilega að við vinnum þann leik. Þá komumst við áfram í undanúrslitin. Við erum búnir að fara yfir það sem fór úrskeiðis. Við ætlum að koma sterkir til baka í leikinn á sunnudaginn og vinna hann. Það er engin spurning."

„Það er virkilega svekkjandi og í raun óþarfi fyrir mig að missa af leiknum, en ég hef fulla trú á strákunum að við munum vinna þennan leik og fara áfram," segir Kolbeinn.

Í liði umferðarinnar og fær mikið hrós
Kolbeinn var á dögunum valinn í lið umferðarinnar í dönsku úrvalsdeildinni þar sem hann átti stórleik í sigri gegn Silkeborg. Kolbeinn skoraði og lagði upp í þeim leik. „Mark og stoðsending þegar Lyngby komst út úr hrinu slæmra úrslita með því að vinna flottan 2-0 sigur gegn Silkeborg. Íslendingurinn er meðal bestu vinstri bakvarða Súperlígunnar," sagði í umfjöllun Tipsbladet.

„Það var frábær leikur og geggjað að enda dönsku úrvalsdeildina á góðum nótum fyrir frí."

„Við erum komnir með 20 stig og það er frábært. Þetta hefur verið upp og niður. Heilt yfir hefur árangurinn verið fínn á tímabilinu og margir mjög góðir leikir. En upp og niður upp á síðkastið. Við höfðum trú á því að við gætum verið nálægt sjötta sætinu."

Hvað ætlar Kolbeinn að gera í vetrarfríinu?

„Ég tek mér auðvitað pásu fyrstu dagana og hvíli mig. Svo æfi ég vel yfir jól og áramót. Ég mæti ferskur aftur í janúar á undirbúningstímabil fyrir seinni hlutann."

Draumurinn að fara á EM
Kolbeinn kom inn í A-landsliðið á þessu ári og gerði vel í stöðu vinstri bakvarðar. Hann er spenntur fyrir því að Ísland sé að fara í umspil um sæti á EM í mars. Andstæðingurinn í undanúrslitunum þar er Ísrael.

„Mér líst mjög vel á það verkefni. Ég held að þetta verði virkilega gaman. Það eru risaleikir framundan og það er spenna og tilhlökkun fyrir því. Þetta verður bara virkilega spennandi."

„Maður reynir að halda áfram að æfa vel og standa sig vel fyrir það verkefni. Ég var mjög glaður að fá tækifærið í ár og mér fannst ég standa mig vel í fyrstu leikjunum. Síðasti leikur gegn Slóvakíu var erfiður en heilt yfir var ég ánægður með það hvernig ég kom inn í þetta. Vonandi get ég haldið áfram að sýna í hvað í mér býr," sagði Kolbeinn en draumurinn er auðvitað að fara á Evrópumótið næsta sumar.

„Það er auðvitað draumurinn hjá öllum. Þetta verða virkilega erfiðir leikir í mars en draumurinn er klárlega að komast á EM."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner