,,Við ætluðum að sækja þessi stig hingað og við gerðum það, ég get ekki verið annað en sáttur með það," sagði Ólafur Þórðarson þjálfari Víkings eftir 1-2 sigur á Grindavík í fyrstu umferð 1. deildar karla í dag.
Lestu um leikinn: Grindavík 1 - 2 Víkingur R.
,,Mér fannst við í rauninni hafa átt að vera komnir í 2-0 en klikkuðum á að nýta það sem var að opnast fyrir okkur. Grindvíkingarnir eru sterkir og þeir fengu líka sín færi og Kale var að verja gríðarlega vel tvisvar þrisvar sinnum og hélt okkur á floti þá. Ég gat verið sáttur við fyrri hálfleikinn í byrjun."
Grindavík er spáð sigur í deildinni í sumar en Víkingum fjórða sæti og sigurinn því góður fyrir drengi Ólafs.
,,Það er alltaf áskorun að koma til Grindavíkur, alveg sama hvar í andskotanum menn spá þeim. Það er alltaf erfitt að spila hérna. Grindvíkingar gefa það sem þeir eiga og ég hef aldrei séð Grindavíkurlið sem ekki berst. Við vissum að það yrði mjög erfitt. Þeir eru með fullt af fínum fótboltamönnum innan sinna raða. Mér fannst þetta jafn leikur og það datt okkar megin í dag og fyrir það er ég mjög þakklátur."
Nánar er rætt við Ólaf í sjónvarpinu að ofan.
Athugasemdir
























