mið 09. október 2019 21:03
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Gnabry kominn með 10 mörk í 11 landsleikjum
Gnabry í leiknum í kvöld.
Gnabry í leiknum í kvöld.
Mynd: Getty Images
Serge Gnabry hefur verið mikið í umræðunni undanfarið en hann gerði mjög sjaldséða fernu í Meistaradeildinni gegn Tottenham fyrir Bayern Munchen í síðustu leikviku.

Gnabry varð aftur á skotskónum í kvöld og nú var það fyrir þýska landsliðið. Gnabry skoraði fyrsta mark leiksins í 2-2 jafntefli Þýskalands og Argentínu í vináttuleik á Signal Iduna Park í Dortmund í kvöld.

Gnabry er með markinu kominn með tíu landsliðsmörk í ellefu landsleikjum. Hann bætir met Miroslav Klose sem náði þessum markafjölda í þrettán landsleikjum. Gnabry hefur skorað sex landsliðsmörk á árinu.

Kai Havertz skoraði annað mark leiksins og kom þeim þýsku í 2-0. Markið er fyrsta landsliðsmark Havertz sem er á mála hjá Leverkusen. Gnabry lagði upp markið fyrir Havertz.

Argentína kom til baka en annar leikmaður Leverkusen átti stóran þátt í endurkomunni. Lucas Alario minnkaði muninn á 65. mínútu og á 85. mínútu lagði hann upp jöfnunarmarkið fyrir Lucas Ocampos.
Athugasemdir
banner