Xavi Simons, Baleba, Höjlund, Akliouche, Kevin, Dibling, Garnacho og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 10. júlí 2023 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Ekki öruggt að ég verði ný manneskja en vonandi hjálpar þetta"
Ákvað að fara skynsamlegri leiðina
Kvenaboltinn Icelandair
Verður ekki með íslenska landsliðinu í komandi vináttuleikjum
Verður ekki með íslenska landsliðinu í komandi vináttuleikjum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásta var með teip á hægri fæti gegn Tindastóli fyrr í þessum mánuði.
Ásta var með teip á hægri fæti gegn Tindastóli fyrr í þessum mánuði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásta er 29 ára hægri bakvörður sem á að baki tólf landsleiki.
Ásta er 29 ára hægri bakvörður sem á að baki tólf landsleiki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, verður ekki með íslenska landsliðinu í komandi vináttuleikjum. Hún hefur glímt við meiðsli í hné og ætlar að nýta landsleikjagluggann í að fara í sprautu á hné og hvíla. Inn í hópinn var kölluð Anna Björk Kristjánsdóttir, leikmaður Vals, sem hefur ekki spilað með landsliðinu í rúm tvö ár.

„Ég er aðallega að horfa í skynsemina, við sjúkraþjálfarinn höfum rætt lengi hvað sé best að gera til þess að fara ekki í neinar stórar aðgerðir. Ég er bókstaflega að keyra núna á leið í sprautuna," sagði Ásta í dag.

„Ég er búin að vera meiðsli og pirring í hnénu í nokkur ár, hef farið í nokkrar aðgerðir og svo er þetta aftur að koma upp núna - hefur verið frá því að tímabilið byrjaði. Ég er alveg leikfær, en ég er lengi að jafna mig milli leikja og ég finn alltaf eitthvað til. Þetta er orðið svolítið pirrandi og við ætluðum að reyna nýta þennan glugga í að skoða hvort ég kæmist í sterasprautu eða nýta í hvíld og til að styrkja svæðið meira."

„Við vorum sammála um að það að fara í tíu daga törn með landsliðinu, æfingar og mögulega spila eitthvað, og fara svo í rosalega pakkaðan ágúst með Blikum - það var ekki að fara gera neitt betra fyrir mig eða liðið. Ég ákvað að fara skynsamlegri leiðina. Auðvitað er þetta leiðinleg tímasetning, en ég var aðallega horfa á félagið og einbeita mér að Breiðabliki."


Ætlar ekki að setja hetjustimpilinn á sig
Ásta hefur verið tekin af velli í síðustu leikjum Breiðabliks. Finnur hún fyrir miklum sársauka í leikjum?

„Þetta er svolítið on/off. Ég er með einhverja rifu í liðþófanum og meira álag þýðir lengri tíma í endurheimt. Ég er búinn að spila nánast alla leikina, myndi ekki segja að ég finni fyrir miklum sársauka en ég finn alltaf fyrir þessu og það er aðallega eftir leiki þar sem ég er ekkert frábær en næ einhvern veginn að púsla mér saman fyrir leiki. Ég ætla ekkert að fara stimpla mig sem einhverja hetju að vera spila í gegnum meiðsli, en það er staðan og ég er að reyna núna að gera eitthvað til þess að þetta verði minna; reyna að stytta tímann sem tekur í endurheimt. Þetta er ekki besta lausnin, en þetta er það sem þarf núna."

Stígur ekki sjálf til hliðar af fyrra bragði
Hefuru misst af æfingum út af þessum meiðslum?

„Ég hef stigið út úr einhverjum æfingum til þess að stýra álaginu. Ási (Ásmundur Arnarsson þjálfari) er sjúkraþjálfari og hann skilur þetta alveg. Hann og Særún og starfsfólkið eiga í góðum samskiptum um hvað sé best að gera. Ég er alls ekki besta manneskjan í að stíga fyrst út úr æfingum, það þarf svolítið að toga mig út. Það hafa komið skilaboð um að sitja hjá og þá hlusta ég á það og geri það sem þau segja."

Þarf að hvíla í heila viku
Hvað gerir svona sprauta, má æfa eftir hana?

„Ég þarf að hvíla í heila viku, má ekki hlaupa í viku eftir sprautuna sem er ástæðan fyrir því að ég þurfti að draga mig út úr landsliðshópnum. Breiðablik er akkúrat í fríi frá æfingum þannig þetta hentar vel út frá því, en á móti kemur missi ég af landsliðsverkefninu. Það er ekki öruggt að ég verði ný manneskja eftir þetta en vonandi hjálpar þetta eitthvað. Ég vona það besta," sagði Ásta.

Seinni hluti viðtalsins við Ástu verður birtur seinna í dag.

Ísland tekur á móti Finnlandi 14. júlí klukkan 18:00 á Laugardalsvelli og heimsækir svo Austurríki þar sem liðin mætast á Stadion Wiener Neustadt í Wiener Neustadt þann 18. júlí klukkan 17:45. Næsti leikur Breiðabliks er gegn FH 29. júlí.
Athugasemdir
banner