mið 13.ágú 2025 15:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|

UTAN VALLAR: Samanburður á fjárhagsstöðu Víkings og Bröndby
Víkingur mætir Bröndby í seinni leik liðanna í 3. umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar annað kvöld. Víkingur leiðir einvígið með þremur mörkum en hvernig standa leikar utan vallar? Skoðum ársreikninga þessara tveggja félaga.
Greinin var einnig birt á utanvallar.is
Fyrirvari
Bröndby breytti nýverið fjárhagsárinu sínu. Áður fyrr var það frá 1. janúar til 31. desember en þeir breyttu því í 1. júlí til 30. júní, sem er í samræmi við flest félög í Danmörku. Nýjasti ársreikningur Bröndby er því frá 1. janúar 2023 til 30. júní 2024 og tekur því til lengra tímabils en ársreikningur Víkings gerir. Lesendur skulu því hafa það í huga í yfirferðinni á rekstrartekjum og rekstrargjöldum, ágæt þumalputtaregla er að draga þriðjung frá.
Rekstrartekjur
Hvað rekstrartekjurnar varðar þá voru þær 6,7 milljarðar króna hjá Bröndby samanborið við 1,3 milljarða króna hjá Víkingi. Rekstrartekjur Bröndby eru því 430,6% hærri en rekstrartekjur Víkings.
Tekjur af leikmannasölu
Hér sést bersýnilega munurinn á íslensku og dönsku deildinni. Bröndby seldi leikmenn fyrir samtals 2,5 milljarða króna á meðan Víkingur seldi leikmenn fyrir einungis 5,5 milljónir króna. Til þess að setja þessa tölu hjá Bröndby í smá samhengi þá er hún hærri en samanlagðar rekstrartekjur Víkings 2022-2024, þær námu rúmlega 2,4 milljörðum króna.
Rekstrargjöld
Rekstrargjöld Víkings voru 852,8 milljónir króna á síðasta ári en rekstrargjöld Bröndby 920,2% hærri, eða rúmir 8,7 milljarðar króna.
Laun og launatengd gjöld
Laun og launatengd gjöld hjá Bröndby voru rúmlega tíu sinnum hærri en laun og launatengd gjöld Víkings. Það er hins vegar heilmikill munur á launahlutfalli félaganna tveggja. Launahlutfall Bröndby var 70,3% en hjá Víkingi var það nokkuð lægra, eða rúmlega 33,0%.
Afkoma
Á meðan Víkingur var rekið með hagnaði upp á 415,7 milljónir króna á síðasta ári var róðurinn þungur hjá Bröndby sem var rekið með tapi upp á rúma tvo milljarða króna.
Eignir
Eignir Bröndby námu 8,2 milljörðum króna en einungis 562,2 milljónir króna hjá Víkingi. Þá var handbært fé Bröndby einnig töluvert hærra, rúmlega 1.899% hærra.
Skuldir
Skuldir Bröndby voru 5,2 milljarðar króna á síðasta ári en þær voru öllu lægri hjá Víkingi, rúmar 46,8 milljónir króna. Hlutfall skulda af eignum, skuldahlutfallið, var 11,0% hjá Víkingi sem er töluvert betra en 63,0% hjá Bröndby.
Eigið fé
Þá var eigið fé Bröndby rúmir þrír milljarðar króna en eigið fé Víkings var 500 milljónir króna.