
Mæðgurnar Herdís Sigurbergsdóttir og Sigrún María Jörundsdóttir eru auðvitað mættar á Tony Bezzina Stadium í Möltu þar sem leikur Íslands og Grikklands í lokakeppni Evrópumóts U19 landsliða hefst klukkan 19:00.
Lestu um leikinn: Ísland U19 0 - 0 Grikkland U19
Sigurbergur Áki Jörundsson, sonur Herdís og bróðir Sigrúnar, er í byrjunarliði Íslands í kvöld.
„Við verðum að viðurkenna að það er smá stress í mannskapnum," sagði Sigrún. „Við héldum að hinn leikurinn væri á undan en hann fer fram á sama tíma. Það er smá stress, en við höfum fulla trú á því að strákarnir taki þennan leik."
„Okkar strákar taka sinn leik," sagði Herdís en Ísland þarf að vinna Grikkland og treysta á það að Spánn vinni Noreg á sama tíma til þess að komast í undanúrslitin.
„Það er bara spurning hvernig hinn leikurinn fer," sagði Herdís jafnframt en þær ætla að fylgjast vel með hinum leiknum sem fer fram á sama tíma.
Tvíburar að spila á EM
Sigurbergur Áki, sem er miðjumaður, byrjaði síðasta leik fyrir íslenska liðið og hann byrjar aftur í kvöld. „Þeir eru bara geggjaðir. Ég fór og skoðaði leikvöllinn sem úrslitaleikurinn er á, ég hef það mikla trú á þeim. Ég trúi því að þeir fari alla leið," sagði Herdís.
„Þetta er geggjaður hópur og þeir eru svo samheldnir. Þetta er búið að vera svo ótrúlega gaman," sagði Sigrún.
Eftir þetta mót þá hefst Evrópumót U19 landsliða kvenna. Þar á fjölskyldan líka fulltrúa því tvíburasystir Sigurbergs, Snædís María, spilar þar með Íslandi.
„Önnur okkar er í sumarfríi og hin ekki. Við erum að reyna að vinna í því að sú sem er ekki í sumarfríi komist líka beint yfir. Vonandi förum við beint yfir (til Belgíu) báðar," sagði Herdís. „Annars fer ég beint yfir, vinn aðeins og mæti til Belgíu á fyrsta leikdegi," sagði Sigrún en hvernig er það að vera eiginlega í fullu starfi við það að styðja systkini sín?
„Það er eiginlega galið, en á sama tíma er það svo geggjað og ég myndi ekki vilja gera neitt annað," sagði Sigrún jafnframt.
„Þetta er ævintýri og þetta er yndislegt, það er ekki hægt að óska sér neins betra," sagði Herdís svo en það kemst lítið annað að en fótbolti á heimilinu. Fjölskyldufaðirinn, Jörundur Áki Sveinsson, er yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ og hefur lengi starfað sem þjálfari.
Bæði Herdís og Sigrún spá sigri Íslands í kvöld en það er vonandi að strákarnir okkar komist í undanúrslit. Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir