Risatilboði Chelsea hafnað - Tekur Nuno við West Ham? - Tveir á blaði United - Ungur miðvörður til Arsenal?
   mán 15. september 2025 14:11
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Óli Jó: Ekki viss um að KR liðið sé betra en staðan segir til um
Óli Jó varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari með FH og tvisvar með Val.
Óli Jó varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari með FH og tvisvar með Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hugsi á hliðarlínunni.
Hugsi á hliðarlínunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, var í athyglisverðu viðtali á SÝN Sport eftir tapið stóra, 0-7, gegn Víkingi í gærkvöldi. Hann var spurður hvort hann sæi sig fyrir sér stýra liðinu út tímabilið.

KR er í tíunda sæti og gæti færst niður í það ellefta ef Afturelding vinnur ÍA klukkan 16:45.

„Góð spurning," svaraði Óskar Hrafn eftir að hafa gefið sér smá tíma. „Já, ég geri það nú, en ég verð að horfa í spegilinn eftir svona frammistöðu og spyrja sjálfan mig margra spurninga, það er alveg ljóst. Hvort að rétta ákvörðunin fyrir KR sé að ég hætti, það verðum við að ræða um. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu þá er það þannig, eina sem skiptir máli er KR," sagði Óskar.

Rætt var um þetta viðtal og stöðu KR í Subway Tilþrifunum á SÝN Sport. Ólafur Jóhannesson, fyrrum þjálfari FH og Vals, fór yfir málin með Henry Birgi Gunnarssyni.

„Mér fannst Óskar svolítið bugaður, en auðvitað hættir hann ekkert, hoppar ekkert af skipinu, það kemur ekki til greina. Óskar er frábær þjálfari, með frábæra hugmyndafræði, en hann þarf að líta í spegil. Þessi úrslit komu mér ekkert mikið á óvart, það hlaut að koma að því að þeir fengju þetta (sína leikaðferð) í bakið. Mér finnst Óskar hafa verið aðeins varkárari seinni partinn, en samt ekki nóg. Svo er líka spurning hvort KR liðið sé eitthvað betra en staðan segir til um? Ég er ekki viss um það. Hann náði í mikið af leikmönnum, nokkra mjög góða, en aðra ekki eins góða, og er að reyna búa til lið. Ég held þeir séu ekkert betri en þetta," sagði Óli.

„Óskar má ekki fara úr þessu (starfi), alls ekki, og ég hef ekki áhyggjur af því. Hann sefur sennilega lítið í nótt," sagði Óli í gær.

Hann benti svo á að með sigrinum stóra hefði Víkingur í raun fengið fjögur stig, þar sem markatalan væri núna orðin sú besta í deildinni.
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 22 12 6 4 47 - 27 +20 42
2.    Valur 22 12 4 6 53 - 35 +18 40
3.    Stjarnan 22 12 4 6 43 - 35 +8 40
4.    Breiðablik 21 9 6 6 36 - 34 +2 33
5.    FH 22 8 6 8 41 - 35 +6 30
6.    Fram 22 8 5 9 32 - 31 +1 29
7.    KA 22 8 5 9 29 - 39 -10 29
8.    ÍBV 21 8 4 9 23 - 27 -4 28
9.    Vestri 22 8 3 11 23 - 28 -5 27
10.    KR 22 6 6 10 42 - 51 -9 24
11.    Afturelding 21 5 6 10 28 - 36 -8 21
12.    ÍA 21 6 1 14 23 - 42 -19 19
Athugasemdir
banner