Real vill Trent - Man Utd mun ekki reyna við Southgate - Aston Villa býr sig undir að keppa um Williams
banner
   þri 11. júní 2024 16:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ísak um pabba sinn: Þetta er mjög spennandi fyrir hann
Jóhannes Karl Guðjónsson.
Jóhannes Karl Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Bergmann Jóhannesson.
Ísak Bergmann Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er mjög skrítið," sagði Ísak Bergmann Jóhannesson, landsliðsmaður Íslands, í viðtali á dögunum þegar hann var spurður út í hvernig það væri ekki að hafa pabba sinn lengur í þjálfarateymi landsliðsins.

Jóhannes Karl Guðjónsson er faðir Ísaks en hann hætti nýverið sem aðstoðarþjálfari landsliðsins til að taka við AB í C-deild í Danmörku.

„Ég var í tvö ár hérna með honum og það var mjög skemmtilegur tími," sagði Ísak.

„Hann er mjög góður þjálfari og það var alltaf markmiðið hjá honum að fara og vera aðalþjálfari aftur. Hann verður í Köben nálægt bróður mínum, Daníel sem er í Nordsjælland. Fjölskyldan flytur út og það er geggjað skref fyrir hann sem þjálfara."

„Þetta er verkefni sem hann getur byggt upp sjálfur. Þetta er mjög spennandi. Ég er strax kominn með annað lið í Danmörku til að fylgjast með," segir Ísak en hann fylgist líka vel með yngri bróður sínum í Nordsjælland.

Jói Kalli fær núna að vinna sem þjálfari á hverjum degi en ekki á nokkurra vikna fresti eins og í landsliðinu.

„Hann saknaði þess held ég. Hann elskaði að vinna í landsliðinu en hann er ungur þjálfari og þeir eiga að vera út á grasi á hverjum einasta degi. Pabbi elskar að vinna með ungum leikmönnum. Þetta er mjög spennandi fyrir hann," sagði Ísak.
Ísak Bergmann fékk stóru spurninguna: Hvar spilar hann næsta tímabil?
Athugasemdir
banner
banner
banner