Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
banner
   þri 11. ágúst 2020 13:30
Magnús Már Einarsson
Stuðningsmenn Man Utd svara: Kemur Sancho í sumar?
Jadon Sancho.
Jadon Sancho.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Jadon Sancho, kantmaður Borussia Dortmund, hefur verið sterklega orðaður við Manchester United í allt sumar. Dortmund tilkynnti í gær að Sancho fari ekki neitt í sumar en margir telja það vera lygi.

Fótbolti.net fékk nokkra stuðningsmenn Manchester United til að svara spurningunni:
Verður Jadon Sancho leikmaður Man Utd á komandi tímabili?



Tryggvi Páll Tryggvason, Stöð 2
Já. Jadon Sancho verður leikmaður United á komandi tímabili. Það er hins vegar ákveðið afrek út af fyrir sig að þrátt fyrir að glugginn sé bara búinn að vera opinn í tvær vikur eða svo er þessi Sancho-saga þegar orðin þreyttari en allar aðrar tilraunir United til að kaupa leikmenn, miðað við þau skilaboð sem félögin senda frá sér í gegnum íþróttafréttamenn. Það er þó frekar augljóst að einörð afstaða Dortmund er bara samningataktík, og að sama skapi er þessi hægagangur í Ed Woodward einhvers konar vísir að samningataktík. Sú taktík svínvirkaði hjá okkar manni síðasta sumar þegar það tók hann margar vikur að ná verðinu á Harry Maguire niður um ekki neitt, sem varð aðeins til þess að hann mætti á síðustu stundu og missti af undirbúningstímabilinu með nýju félagi. Maður hefur sterklega á tilfinningunni að sagan muni endurtaka sig með Sancho, hann kemur til United seint og um síðir, líklega fyrir um það bil það verð sem Dortmund vildi fá fyrir kappann til þess að byrja með.

Hörður Snævar Jónsson 433.is
Eins og staðan virðist vera í dag geta þessi félagaskipti farið í hvaða átt sem er. Dortmund pirrar sig á því að United hafi ekki virt þessa dagsetningu sem þeir settu upp sem lokadag til að klára þetta. Á sama tíma pirrar United sig á því að Dortmund krefst þess að öll samskipti fari í gegnum umboðsmann. Miðað við það sem maður les þá vantar Dortmund aur, kaupin á Bellingham og Haaland ofan í Covid-19 hefur haft áhrif á fjárhag félagsins. Það eru tveir mánuðir eftir af glugganum og sagan hjá Dortmund segir fólki að þeir selja ef rétt verð er borgað. Ég ætla að veðja á að Sancho endi í röðum United því hann er svo sannarlega spil sem vantar í stokkinn hjá Ole Gunnar Solskjær.

Jóhann Skúli Jónsson, Draumaliðið
Mér líður eins og ég hafi séð þessa sögu svona milljón sinnum áður hjá Manchester United. Það virðist vera raunverulegur áhugi til staðar og það endar yfirleitt þannig að United fá þann sem þeir vilja (Wayne Rooney, Owen Hargreaves, Dimitar Berbatov, Paul Pogba og Harry Maguire sennilega verandi eftirminnilegustu dæmin í minni tíð varðandi þessa löngu eltingaleiki sem byrja á hinni frægu hands-off warning). Ég myndi persónulega forgangsraða peningum félagsins í annað þessa stundina en mér finnst allt benda til þess að Sancho verði keyptur fyrir metfé í sumar.

Guðmundur Hilmarsson, íþróttafréttamaður
Ég held að líkurnar séu minni en meiri að Sancho gangi í raðir United fyrir næstu leiktíð ef marka má yfirlýsingar forráðamanna Dortmund í gær. Hins vegar má leiða líkum að því Þjóðverjarnir séu að spila einhvern póker og séu með þessu að þrýsta á Manchester United að greiða uppsett verð fyrir leikmanninn. Verðmiðinn á Sancho hefur margfaldast. Dortmund greiddi 7,2 milljónir punda fyrir hann fyrir þremur árum en vill nú fá 108 milljónir punda. Ef ég þekki mína menn á Old Trafford rétt eru þeir ekki reiðubúnir að punga þessari fjárhæð út fyrir strákinn svo ég held að á næstu dögum og vikum reyni United að þrýsta verðinu eitthvað niður. Ég veit ekki til þess að United hafi send Dortmund inn tilboð enn sem komið er en mér þætti ekki ólíklegt að það komi innan tíðar. Um leið og tilboðið kemur á borðið þá gætu forráðamenn félaganna sest niður og reynt að ná lendingu. Hvort það endi með því að Sancho fari til Manchester fyrir tímabilið er erfitt að spá fyrir um en eigum við ekki að segja líkurnar séu 50/50.

Orri Freyr Rúnarsson, Sportrásin á Rás 2
Ég reikna með að Sancho verði leikmaður Man Utd á næsta tímabili en myndi nú samt ekki veðja aleigunni á það. Síðustu leikir í deild og Evrópudeildinni sýna að OGS treystir ekki hópnum sínum heldur aðeins sínu sterkasta byrjunarliði. Hann mun því setja gríðarlega pressu á Ed Woodward & co að klára þessi félagsskipti sem fyrst. Dortmund vita að Sancho sé fyrsta val Man Utd og reyna því eðlilega að hámarka upphæðina með öllum tiltækum ráðum. Síðustu ár sýna hinsvegar að liðið er tilbúið að selja sína bestu leikmenn fyrir rétt verð, sbr. Gundögan, Hummels, Mkhitaryan, Aubameyang, Dembele, Pulisic o.fl. Heimavöllur Dortmund tekur um 80.000 manns og hefur staðið auður síðustu mánuði og þannig verður staðan eflaust áfram í einhvern tíma. Liðið er afar háð tekjum af miðasölu, en um 20% af tekjum félagsins koma í gegnum miðasölu. Núna er liðið með ansi marga launaháa leikmenn sem hafa bæst við á síðustu mánuðum, t.d. Erling Haaland, Jude Bellingham, Emre Can, Thorgen Hazard, Julian Brandt og fleiri. Að losa Sancho af launaskrá og fá tæpar 100 milljónir punda að auki til að fjárfesta í yngri og ódýrari leikmönnum ætti að vera nokkuð spennandi fyrir stjórnarfólk Dortmund.

Halldór Marteinsson, raududjoflarnir.is
Fyrir viku síðan hefði ég getað svarað mjög afdráttarlaust að Jadon Sancho yrði leikmaður Manchester United þegar næsta tímabil færi í gang. Fréttirnar voru þannig að mér fannst það einfaldlega dagaspursmál hvenær félögin myndu klára dílinn og ganga frá þessu.
En svo ákváðu bæði félög að byrja að spila félagaskiptapókerinn fyrir alvöru og nota fjölmiðla í heimalöndum sínum í þeim tilgangi að reyna að koma því til skila við hitt félagið að þau hefðu bestu spilin á hendi í þessum pókerleik. Þetta gæti verið löngu búið en mun sennilega dragast eitthvað lengur, jafnvel alveg fram í október.
Maður hefði haldið að Manchester United væri búið að læra eitthvað af baslinu í kringum Bruno Fernandes og hvað koma slíks leikmanns getur, á endanum, haft mikil og jákvæð áhrif á leik liðsins.United getur fengið Sancho, það er leikmaður sem myndi klárlega koma með mikið inn í lið United og hjálpa því að taka annað stökk í áttina að því að nálgast liðin tvö fyrir ofan United í deildinni. Það væri líka fínt fyrir liðið að fá annan leikmann inn sem getur verið duglegur að vinna vítaspyrnur með beinskeyttum sóknarleik. Við United-menn viljum auðvitað að Bruno taki sem flestar vítaspyrnur.
Ég er ennþá á því að það séu meiri líkur en minni að hann verði leikmaður Manchester United. Ég vona innilega að það verði ekki fari út í eitthvað sprell eins og að ætla að bíða í hálft ár eða ár eftir því, það er ekkert víst að United verði eina liðið sem reyni að fá hann til sín ef það gerist.
Ég ætla því að segja já, Sancho verður leikmaður Manchester United á komandi tímabili. Fyrir viku hefði þetta verið 95% já en núna er þetta svona ca. 75% já.
Athugasemdir
banner
banner
banner