Hjörtur Júlíus Hjartarson kom Víkingum á bragðið í 2-0 sigri á Haukum í Borgunarbikarnum í kvöld.
,,Ég var á lífi í fyrri hálfleik en síðan dró af mér í seinni hálfleik. Ég dugði í svona 50-60 mínútur en ég kom inn marki," sagði Hjörtur sem skoraði alvöru framherja mark, var réttur maður á réttum stað inn í teig Hauka.
,,Mér finnst þetta alltaf bestu mörkin, af eins metra færi, svona pot mörk. Ég hef ekkert verið mikið í því að skora mörk fyrir utan teig svo ég tek svona mörkum fagnandi.
,,Þetta voru nokkuð sanngjörn úrslit fannst mér. Mér fannst Haukarnir byrja ágætlega og fengu úrvalsfæri í byrjun leiks til að skora en Ingvar Kale varði það. Síðan hægt og bítandi fannst mér við ná tökum á leiknum og við hefðum átt að vera búnir að skora áður en ég kom okkur yfir."
,,Ég seinni hálfleik dró af báðum liðum en mér fannst við alltaf vera með tök á leiknum," sagði Hjörtur aðspurður út í leikinn. Hann var reyndar ekki alveg viss hvort þessi leikur hafi verið í 64-liða úrslitum.
,,Var þetta í 64-liða úrslitum? Ég var nokkuð viss um að þetta væri í 32-liða úrslitum. Þetta var líklega erfiðasti drátturinn sem við hefðum getað fengið í þessari umferð. Það er enn fullt af utandeildarliðum í keppninni, með fullri virðingu fyrir þeim þá var þetta eitt erfiðasta liðið sem við hefðum getað fengið," sagði Hjörtur um það að hafa mætt Haukum í 64-liða úrslitum bikarsins.
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir






















