KA tekur á móti Connah's Quay Nomads í fyrstu umferð í forkeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld.
Liðin eigast við á Framvelli í Úlfarsárdal klukkan 18:00 og verður leikurinn sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 5.
Ásgeir Sigurgeirsson, lykilmaður og fyrirliði KA, svaraði spurningum á fréttamannafundi í gær.
„Við erum búnir að bíða eftir þessum leik lengi og það er loksins komið að þessu. Hópurinn er klár," sagði Ásgeir, sem ræddi svo um sigurinn gegn Blikum í undanúrslitaleik Mjólkurbikarsins. „Við tókum nokkrar rólegar æfingar eftir hann þar sem við þurftum að eyða mikilli orku í leikinn. Við erum komnir með mjög góðan móral eftir þann leik og það mun alveg tvímælalaust hjálpa okkur í þessum leik. Við komum mjög vel stemmdir inn í þennan leik."
Hann segir að leikplanið hjá KA sé að keyra hratt á gestina frá Wales og spila í kringum þá, þar sem þeir geta verið þunglamalegir á undirbúningstímabilinu. KA er í fullu fjöri í íslenska boltanum og ættu Akureyringar því að vera í toppstandi fyrir leikinn.
„Við eigum að geta unnið þá en við megum ekki vanmeta þetta lið. Þetta er lið sem hefur keppt í Evrópu síðustu ár og komist áfram nokkrum sinnum. Við megum alls ekki vanmeta þá, við erum ekki heldur stórt lið í Evrópu."