sun 14. ágúst 2022 21:51
Ívan Guðjón Baldursson
Noregur: Jónatan Ingi og Valdimar Þór skoruðu í góðum sigri
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.

Hólmbert Aron Friðjónsson lék allan leikinn er Lilleström tapaði óvænt fyrir Jerv í efstu deild norska boltans í dag. Leiknum lauk með 1-0 sigri Jerv sem er í bullandi fallbaráttu og hafði tapað sex leikjum í röð fyrir þessa viðureign.


Það er mikill skellur fyrir Lilleström sem er að missa Molde framúr sér í toppbaráttunni og þá er Evrópulið Bodö/Glimt á fleygiferð með sex sigra í röð í deildinni. Glimt er búið að jafna Lilleström á stigum í öðru sæti.

Núna er Lilleström með 37 stig eftir 18 umferðir, fimm stigum eftir toppliði Molde sem er búið að vinna fimm leiki í röð.

Jerv 1 - 0 Lilleström
1-0 Arav Simsir ('65, víti)

Brynjólfur Darri Willumsson var í byrjunarliði Kristiansund sem tapaði í Tromsö. Hann spilaði í 81 mínútu en tókst ekki að skora og er liðið í langneðsta sæti deildarinnar með sex stig eftir 18 umferðir.

Brynjar Ingi Bjarnason var þá ónotaður varamaður hjá Vålerenga í jafntefli gegn Ham-Kam. Leikurinn var jafn en Vålerenga hefur verið á blússandi siglingu að undanförnu og er með 27 stig eftir 18 umferðir, tíu stigum frá toppbaráttunni.

Tromsö 2 - 1 Kristiansund

Ham-Kam 1 - 1 Vålerenga

Þá voru þrír Íslendingar í byrjunarliði Sogndal sem vann stórsigur á Mjondalen í norsku B-deildinni. Sogndal er í harðri baráttu um umspilssæti og koma þessi þrjú stig sér afar vel þar.

Jónatan Ingi Jónsson skoraði tvennu í fjögurra marka sigri, eitt úr víti, og komst Valdimar Þór Ingimundarson einnig á blað.

Sogndal er með 32 stig eftir 20 umferðir og situr í umspilssæti sem stendur. Liðið er aðeins sex stigum frá öðru sæti deildarinnar sem gefur beinan þátttökurétt í efstu deild á næstu leiktíð.

Start átti einnig leik og gerði 2-2 jafntefli við Kongsvinger. Bjarni Mark Antonsson var ekki í hóp en Start er aðeins tveimur stigum eftir Sogndal í umspilsbaráttunni.

Mjondalen 0 - 4 Sogndal
0-1 Jónatan Ingi Jónsson ('10)
0-2 Jónatan Ingi Jónsson ('68, víti)
0-3 A. Diaz ('71)
0-4 Valdimar Þór Ingimundarson ('83)

Kongsvinger 2 - 2 Start


Athugasemdir
banner
banner