„Það eru forréttindi að fá að eyða deginum með þessum meisturum," segir Sif Atladóttir, varnarmaður íslenska landsliðsins, sem heldur upp á 32 ára afmæli sitt í dag.
Sif náði að sofa út á afmælisdeginum en herbergisfélagi hennar, Dagný Brynjarsdóttir, færði henni gjöf í morgunsárið.
Sif náði að sofa út á afmælisdeginum en herbergisfélagi hennar, Dagný Brynjarsdóttir, færði henni gjöf í morgunsárið.
„Dagný er búin að hugsa vel um mig og ég fékk afmælispakka í morgun. Ég fékk súkkulaðimöndlur, bingó kúlur og maska fyrir andlitið. Svo fékk ég heimatilbúið möndlugott."
Íslenska liðið kom til Hollands í gær en glæsileg kveðjustund var á Keflavíkurflugvelli. Áhuginn á liðinu er gríðarlegur.
„Maður var ótrúlega hrærður. Það voru margar tilfinningar sem komu upp en allar rosalega jákvæðar. Það er eitthvað í loftinu, eitthvað rafmagn sem er að hjálpa okkur."
Það sést vel á allri umgjörð og áhuga í kringum Ísland í Hollandi hversu hröð framþróun er í kvennafótboltanum.
„Við vorum að hlæja að muninum ár frá ári, hvernig þetta var 2009, 2013 og svo núna. Þetta eru þrjú mismunandi mót. Maður sér hvað kvennaboltinn er á stöðugri uppleið," segir Sif sem hefur leikið 67 landsleiki frá 2007.
Ísland mætir einu sigurstranglegasta liði mótsins, Frakklandi, í fyrsta leik á þriðjudag.
„Við erum þekktar fyrir að taka svona áskorunum og við ætlum að gera það vel. Það er frábært að fá Frakkland í fyrsta leik."
Sjáðu viðtalið í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir
























