mán 15. nóvember 2021 19:56
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Brotin loforð Solskjær vekja reiði
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United.
Mynd: EPA
Lingard var einn af betri leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar seinni hluta síðasta tímabils er hann var leikmaður West Ham. Hjá Man Utd fær hann lítið að spila.
Lingard var einn af betri leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar seinni hluta síðasta tímabils er hann var leikmaður West Ham. Hjá Man Utd fær hann lítið að spila.
Mynd: EPA
Nokkrir leikmenn Manchester United eru sagðir verulega ósáttir með það hversu lítið Ole Gunnar Solskjær hreyfir við liði sínu.

Solskjær spilar mjög mikið á sömu leikmönnunum og eru ákveðnir leikmenn sem hafa lítið sem ekkert spilað á þessu tímabili. Helsta dæmið um það er hollenski miðjumaðurinn Donny van de Beek sem er orðinn verulega pirraður á stöðunni og stefnir á að fara annað í janúar.

ESPN hefur heimildir fyrir því að alls átta leikmenn séu reiðir yfir því að fá lítið að spila. Anthony Martial, Jesse Lingard, Dean Henderson, Eric Bailly, Diogo Dalot, Juan Mata og Alex Telles eru nefndir. Og Van de Beek auðvitað líka.

Fram kemur í greininni að Solskjær hafi tekið undir það á fundum síðasta sumar að hann hafi notað ákveðna leikmenn of mikið á síðasta tímabili. Hann lofaði þeim leikmönnum sem nefndir eru hér að ofan að fá fleiri mínútur inn á vellinum.

„Í sumum tilfellum dugðu loforð Solskjær til svo að leikmenn settu áform sín um að yfirgefa Old Trafford í kælingu. Svo hafa þeir þurft að sitja á hliðarlínunni," segir í greininni.

Solskjær hefur sett traust sitt á ákveðna leikmenn þrátt fyrir að árangurinn hafi ekki verið góður. Úrslitin hafa ekki verið góð en samt heldur Norðmaðurinn starfi sínu.

Leikmenn hissa á stöðu Lingard
Það er mikið talað um Van de Beek og að hann fái ekki að spila. En Jesse Lingard er jafnvel enn furðulegra tilfelli. Hann var lánaður til West Ham síðasta janúar og var stórkostlegur þar. Hann hjálpaði liðinu að komast í Evrópukeppni og var einn af betri leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar á seinni hluta síðustu leiktíðar.

West Ham hafði áhuga á að kaupa hann síðasta sumar en United hélt honum. Hann hefur hins vegar þurft að gera sér það að góðu að sitja á bekknum.

James Ducker, blaðamaður Telegraph, segir að liðsfélagar Lingard séu gáttaðir á stöðunni og skilji ekki af hverju hann fái ekki að spila meira.

Næsti leikur Man Utd er gegn Watford á laugardaginn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner