Magnús Gylfason var ekki ánægður með spilamennsku sinna manna í fyrri hálfleik í kvöld, þegar Valur gerði 1-1 jafntefli gegn Fram á heimavelli. Liðið var 0-1 undir í hálfleik en mættu miklu betur stemmdir í seinni hálfleikinn, jöfnuðu og klikkuðu til að mynda víti.
Lestu um leikinn: Valur 1 - 1 Fram
,,Við komum ekki klárir til leiks. Ég er mjög hissa á mínum mönnum, ég man ekki eftir svona spilamennsku frá þeim. Við vorum á hælunum og hlupum ekki nóg, börðumst ekki og boltinn var ekki látinn ganga eins og við höfum gert. Þetta var einfaldlega hræðilegur fyrri hálfleikur, sagði Magnús Gylfason aðspurður út í fyrstu fjörtíu mínútur leiksins.
,,Við urðum að gera breytingar. Það var ekkert í lagi hjá okkur í fyrri hálfleik. Við gerðum taktískar breytingar og mér fannst það snarlagast við þær og mér finnst seinni hálfleikurinn hjá okkur mjög góður," sagði Maggi aðspurður út í það að hann hafi tekið Matar Nesta útaf á 40.mínútu leiksins og Andri Fannar í hálfleik.
,,Ég var frekar reiður og það er ekkert launungarmál að ég var ekki sáttur í hálfleik. Við tókum gott spjall og mér fannst þeir koma tilbúnir í seinni hálfleikinn, sagði Magnús en Valsarnir voru eins og allt annað lið í seinni hálfleik miðað við fyrri hálfleikinn.
Athugasemdir























