Fylkir og ÍBV gerðu 2-2 jafntefli í kvöld í fyrstu umferð eftir skiptingu í neðri hluta Bestu deild karla.
Lestu um leikinn: Fylkir 2 - 2 ÍBV
„Bara hörkuleikur og mér fannst við spila ágætlega 75% af þessum leik. Dettum niður í byrjun seinni hálfleiks þar sem ÍBV tekur aðeins yfir leikinn. Eftir að þeir komast yfir förum við aftur í gang og þeir detta niður og helvítis kraftur í okkur. Við hefðum viljað vinna þennan leik að sjálfsögðu og fengum færi til þess bæði í fyrri hálfleik og í lok leiksins til þess að setja þetta þriðja mark.“
Rúnar gerði breytingu á liði sínu á 85. mínútu þegar hann setti hinn 19 ára gamla Þórodd Víkingsson inn á fyrir Benedikt Daríus. Mínútu síðar var Þóroddur búinn að skora með sinni fyrstu snertingu í leiknum.
„Þóroddur er ungur strákur sem er að stíga sín fyrstu skref. Hann er mikill markaskorari,er með þvílíkan skrokk og bara framtíðarleikmaður okkar.“
Ásgeir Eyþórsson var á bekknum hjá Fylki í dag en hann hefur verið að glíma við meiðsli bróðurpart mótsins.
„Það styttist með hverjum degi. Hann er gríðarlega mikilvægur fyrir Fylkisliðið það segir sig sjálft, okkar besti maður síðustu ár. Við höfum spilað nánast heilt mót án hans og gert það ágætlega.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.