KA hélt hreinu í fyrsta sinn í deildinni á tímabilinu þegar liðið gerði markalaust jafntefli gegn ÍBV í Eyjum í dag. Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, var jákvæður þegar hann spjallaði við Fótbolta.net eftir leikinn.
Lestu um leikinn: ÍBV 0 - 0 KA
„Ég er jákvæður, virkilega ánægður með hugarfarið í liðinu og ánægður með varnarleikinn. Það er það sem við höfum verið að vandræðast með, við settumst niður og töluðum saman og mér fannst ég fá gott svar í dag," sagði Haddi.
„Við byrjuðum líka svona illa í fyrra. Það þýðir ekkert annað en að gera það besta í stöðunni, þú lagar ekki tíu hluti í einu, þú einbeitir þér að einum eða tveimur og gerir það vel. Ég hef það mikla trú á leikmönnunum sem við erum með, ég hef fulla trú á því að við náum að snúa þessu við."
Neikvæð umræða hefur skapast í kringum KA liðið eftir slæma byrjun sem Haddi er ekki sáttur við.
„Við erum staðráðnir í að leysa þetta saman. Það er engin kergja þótt fjölmiðlar reyni að búa til hluti og reyni að ljúga upp á okkur til að fá fyrirsagnir þá höldum við ótrauðir áfram," sagði Haddi.
Athugasemdir