„Maður finnur þvílíkan stuðning og allir hafa rosa skoðun sem er frábært. Það er ógeðslega gaman og gefur manni auka kraft og mann langar að halda áfram að bæta sig og ná landsliðinu ennþá hærra," segir Dagný Brynjarsdóttir landsliðskona um breytt umhverfi hjá kvennalandsliðinu sem hefur notið mun meiri athygli en áður á árinu. Liðið mætir Færeyjum í undankeppni HM 2019 á Laugardalsvelli í kvöld.
En var erfitt að venjast því að allir hafa skoðun á liðinu í dag, ýmist jákvæða eða neikvæða?
„Nei alls ekki, mér finnst það geðveikt. Ég er búin að vera í Portland í tvö ár þar sem eru 20 þúsund manns á vellinum. Ég var því alveg tilbúin í þetta hérna heima og finnst þetta ógeðslega gaman," sagði Dagný en kvennalandsliðið var mikið gagnrýnt á Evrópumótinu í sumar, nokkuð sem Dagný er ánægð með.
„Við fengum hŕós ef við áttum það skilið og fengum drullið þegar við áttum það líka skilið. Við erum íþróttamenn og þetta er hluti af því. Loksins fengu allar okkar að kynnast þessu sem er gott og hollt fyrir alla," sagði hún.
Dagný var sjálf að glíma við meiðslin framan af árinu og ekki alveg í sínu besta á Evrópumótinu í sumar. En hvernig er standið núna?
„Það er rosalega gott. Mér líður rosalega vel líkamlega og núna loksins er ég komin í mitt besta," sagði Dagný sem hefur spilað ýmsar stöður hjá félagsliði sínu, Portland í Bandaríkjunum upp á síðkastið.
„Ég er búin að spila í bakverði, miðju, kanti og frammi. Ég er búin að spila allar stöður nema sem miðvörður og markvörður. Hann gæti alveg sett mig einhvern tíma í miðvörð en ég efast um að hann noti mig sem markvörð," sagði hún.
„Kannski er kostur að geta spilað margar stöður en mér finnst skemmtilegtast að spila á miðjunni og hæfileikar mínir nýtast best þar. En auðvitað spila ég þeim stöðum sem þjálfarinn vill spila mér í."
Nánar er rætt við hana í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir






















