Þróttur vann sinn fyrsta leik í Lengjudeildinni í síðustu umferð þegar þeir lögðu Víking Ólafsvík að velli. Þeim var þó kippt niður á jörðina í kvöld þegar þeir töpuðu fyrir Grindavík með fjórum mörkum gegn tveimur. Gunnar Guðmundsson þjálfari var ekki sáttur með mikið annað en kannski mörkin tvö sem hans menn skoruðu.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 2 - 4 Grindavík
„Ég er bara hrikalega ósáttur með mína menn. Bara vonbrigði, sérstaklega með fyrri hálfleikinn. Við vissum alveg að Grindvíkingarnir kæmu gíraðir í þennan leik og mér fannst við ekki matcha þá í vinnslunni og baráttunni''
Eins og áður sagði unnu Þróttarar sinn fyrsta leik í sumar í síðustu umferð en náðu ekki að fylgja því eftir í kvöld.
„Ég átti von á meira frá mínum mönnum eftir sigurinn á Ólafsvíkingum að menn myndu fylgja þessu eftir en það gerðum við ekki. Svo kom smá líf í okkur í seinni hálfleikinn en því miður bara var það of seint''.
„Mikil vonbrigði með mitt lið í dag. Menn þurfa virkilega að girða sig í brók ef við ætlum að halda okkur í deildinni''.
Þrátt fyrir tapið telur Gunnar að Þróttarar séu á réttri leið hvað varðar spilamennskuna. Þeir þurfi þó að gera mun betur en í kvöld.
„Að sjálfsögðu, ég hef alveg fulla trú á að við getum snúið þessu við en ekki með svona frammistöðu eins og við sýndum hérna í dag, það er alveg á hreinu. Það koma góðir leikir inn á milli en síðan dettum við niður því miður í svona leiki og ég er mjög ósattur við það''
„Það hefði verið mikilvægt að taka eitthvað út úr leiknum í dag en við gerðum það ekki en það er bara næsti leikur''
Athugasemdir
























