Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   fös 19. ágúst 2022 16:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Magnús Kjartan spáir í 3. umferð ensku úrvalsdeildarinnar
Magnús Kjartan stýrði brekkusöngnum á Þjóðhátíð í ár.
Magnús Kjartan stýrði brekkusöngnum á Þjóðhátíð í ár.
Mynd: Úr einkasafni
William Saliba.
William Saliba.
Mynd: Getty Images
Scott McTominay.
Scott McTominay.
Mynd: Man Utd
Þriðja umferð ensku úrvalsdeildarinnar hefst á morgun og klárast svo á mánudaginn þegar erkifjendurnir í Liverpool og Manchester United eigast við.

Theódór Ingi Pálmason, Teddi Ponza - FPL Ponza, var spámaður síðustu umferðar og var hann með átta rétta, þar af fjóra hárrétta.

Spámaður þriðju umferðar er Magnús Kjartan Eyjólfsson, söngvari Stuðlabandsins og leikmaður ÍBU.

Tottenham 2 - 0 Wolves (11:30 á morgun)
Tottenham líta leiðinlega vel út og eru með stjóra sem fengi leikmennina til að deyja fyrir sig. Wolves ættu ekki að vera teljandi fyrirstaða fyrir þá. Fyrirsjáanlegt markaskorarapar í Kane og Son.

Crystal Palace 2 - 1 Aston Villa (14:00 á morgun)
Ég held að einn besti miðjumaður deildarinnar frá upphafi, Patrick Vieira, nái í fyrsta sigur Palace. Ég allavega held meira með honum en Stevie G. Zaha og Doucoure sjá um þetta fyrir Patrek vin minn og ég giska á að Ollie skori fyrir Villa.

Everton 0 - 1 Nottingham Forest (14:00 á morgun)
Ég hef ofboðslega litla trú á Everton þessa dagana á meðan það er gaman í Nottingham. Henderson heldur hreinu og Neco Williams leggur hann í netið.

Fulham 1 - 1 Brentford (14:00 á morgun)
Það er líklegt að Brentfordpiltar mæti ofpeppaðir til leiks eftir flugferðina í síðasta leik. Fulhammenn eru algjörlega óhræddir og ná að komast yfir með marki frá Mitrovic (auðvitað). Trölladrengurnn Toney nær að jafna á sirka 70. mínútu en nýliðarnir standa af sér pressuna.

Leicester 3 - 1 Southampton (14:00 á morgun)
Þeir bláu mæta dýrvitlausir til leiks eftir niðurlægingu síðustu umferðar og verða komnir í 3-0 eftir hálftíma. Ætla svo að vera sniðugir og halda boltanum en fá á sig klaufalegt mark eftir heilafrost hjá Evans. Danny Ward stígur upp eftir mistök síðustu helgar og tryggir þetta fyrir Leicester. Veit ekkert hverjir skora en Vardy setur örugglega eitt.

Bournemouth 0 - 4 Arsenal (16:30 á morgun)
Leikurinn sem allir eru að bíða eftir! Arteta er að smíða skriðdreka í Norður London og bara tímaspursmál hvenær titillinn skilar sér í hús. Eða maður leyfir sér allavega að dreyma. Jesus og Martinelli setja sitt hvort í fyrri og Saka eitt í seinni. Svo kæmi mér ekki á óvart ef Saliba myndi stanga einn í rétt mark og fá okkur helsjúku stuðningsmennina til að fara að tala um hann sem besta varnarmann deildarinnar. Trust the process.

Leeds 0 - 2 Chelsea (13:00 á sunnudag)
Þetta verður erfið fæðing fyrir Chelsea en þeir ná að troða inn tveimur á seinasta korterinu. Sterling og Mount klára þetta fyrir Chelsea og Tuchel og Marsch horfast vandræðalega lengi í augu eftir leik.

West Ham 2 - 0 Brighton (13:00 á sunnudag)
Nú er komin tími á að Hamrarnir trekki sig í gang og negli inn nokkrum stigum. Þeir fá víti og Declan Rice rífur boltann af Antonio og kvittar fyrir klúðrið í síðasta leik. Benrahma tryggir þetta svo í uppbótartíma.

Newcastle 1 - 5 Man City (15:30 á sunnudag)
Battle of the oil money verður ekkert sérstaklega spennandi í þetta skiptið. City er einfaldlega mikið betra lið og með kið betri stjóra en Newcastle. Bilið á samt eftir að minnka á næstu árum. Haaland gerir þrennu og De Bruyne eitt. Fimmta markið verður örugglega sjálfsmark. Newcastlemarkið verður líka sjálfsmark.

Man Utd 1 - 0 Liverpool (19:00 á mánudag)
Öll heilbryggð skynsemi segir mér að Liverpool eigi að taka þetta örugglega. Þessvegna ætla ég að tippa á United. Fred neglir inn einu af löngu færi og McTominey fær rautt spjald. Strákurinn í markinu (bein tilvitnun í Hjörvar Hafliðason) á svo eftir að eiga stórleik og verður valinn leikmaður umferðarinnar.

Fyrri spámenn:
Teddi Ponza - 8 réttir
Tómas Þór - 6 réttir
Enski boltinn - Sumir gengu of langt
Athugasemdir
banner
banner
banner