„Við erum gríðarlega ánægðir að koma hingað og vinna sterkan sigur, skora fjögur mörk og hefðum geta skorað mun fleiri. Við norðanmenn erum gríðarlega ánægðir í dag," sagði Hallgrímur Jónasson aðstoðarþjálfari KA eftir 1 - 4 sigur á Val í næst síðustu umferð Pepsi Max-deildarinnar í dag.
Lestu um leikinn: Valur 1 - 4 KA
Leikurinn í kvöld var mjög fjörugur og bæði lið fengu urmul færa til að skora fleiri mörk.
„Leikurinn var skemmtilegur því við unnum hann, en hann var heldur opinn. Bæði lið hefðu geta skorað fleiri mörk og þetta var óvenju opinn leikur miðað við að þessi tvö lið væru að mætast," sagði hann.
KA komst í 3. sæti deildarinnar með sigrinum í kvöld en þeir munu kannski ekki vita fyrr en tveimur vikum eftir að Íslandsmótinu lýkur hvort það sé Evrópusæti eða ekki. Það veltur í raun á því hvort Víkingur verði bikarmeistari eða ekki því þá færist Evrópusætið fyrir bikarsigur yfir í deildina. Fyrst þarf KA samt líka að vinna FH í lokaumferðinni.
„Við ætlum okkur að vinna FH til að ná þessu þriðja sæti og treysta á að Víkingur geri það að Evrópusæti," sagði Haddi og játaði því að KA menn muni halda með Víkingi í bikarnum. En ætla þeir að sitja saman þá og horfa á bikarúrslitaleikinn?
„Ég er ekki búinn að ákveða það en ég vonast til þess að Kári og Sölvi verði góðir í bakinu og allt verði gott. En áður en við getum farið að hugsa um það þurfum við að klára okkar leik á móti FH."
Allt viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.
Athugasemdir