Næstu þrír leikir ráða framtíð Amorim - Glasner, Southgate, Silva og Iraola orðaðir við Man Utd - Liverpool horfir til Araujo
   mið 17. september 2025 09:30
Elvar Geir Magnússon
HK gegn Þrótti í umspilinu - Fékk HK gullmiðann?
Lengjudeildin
Úr viðureign Þróttar og HK í sumar.
Úr viðureign Þróttar og HK í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dagur Orri er markahæstur HK-inga en hann gengur í raðir Vals um áramótin.
Dagur Orri er markahæstur HK-inga en hann gengur í raðir Vals um áramótin.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Kári Kristjánsson, lykilmaður Þróttar, verður í banni í kvöld.
Kári Kristjánsson, lykilmaður Þróttar, verður í banni í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helgi Mikael dæmir leikinn.
Helgi Mikael dæmir leikinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í kvöld miðvikudag klukkan 19:15 fer fram fyrri leikur HK og Þróttar í umspili Lengjudeildarinnar. Fyrri leikurinn verður í Kórnum en sá seinni verður svo í Laugardalnum á sunnudag. Sigurliðið í einvíginu kemst í úrslitaleikinn á Laugardalsvelli, þar sem barist verður um sæti í Bestu deildinni.

Hér má sjá upphitun fyrir viðureignina sem framundan er.

Lokastaðan í deildinni:

3. sæti - Þróttur (43-37), 41 stig
Þrótti var spáð fjórða sæti í Lengjudeildinni og því lokaniðurstaða liðsins ekkert óvænt. En liðið lék hinsvegar hreinan úrslitaleik við Þór í lokaumferðinni um toppsætið og tapaði þar. Spurning hvort Þróttarar nái að yfirstíga þau vonbrigði og gíra sig af alvöru upp í umspilið. Þróttur fékk skell í Kórnum fyrr í þessum mánuði og á harma að hafnað.

4. sæti - HK (46-29), 40 stig
HK var spáð þriðja sæti og fer inn í umspilið eins og spáð var. Liðið hefur verið á svona nokkuð svipuðu róli yfir allt tímabilið. Þetta er þriðja árið sem leikið er með þessu fyrirkomulagi og í hin tvö skiptin hafa liðin í fjórða sæti endað á að fara upp. Fékk HK gullmiðann?

Fyrri viðureignir liðanna á tímabilinu

HK 5 - 2 Þróttur R.
1-0 Magnús Arnar Pétursson ('7)
2-0 Ívar Örn Jónsson ('49, víti)
2-1 Hlynur Þórhallsson ('66)
3-1 Jóhann Þór Arnarsson ('79)
4-1 Jóhann Þór Arnarsson ('85)
4-2 Njörður Þórhallsson ('87)
5-2 Jóhann Þór Arnarsson ('90)
Lestu um leikinn

Þróttur R. 2 - 2 HK
1-0 Aron Snær Ingason ('10)
1-1 Eiður Atli Rúnarsson ('15)
1-2 Birnir Breki Burknason ('38)
2-2 Liam Daði Jeffs ('70)
Lestu um leikinn

Markaskorararnir

HK - Dagur Orri Garðarsson 11 mörk í 21 leik
Þessi tvítugi sóknarmaður hefur reynst HK-ingum vel en hann kom á láni frá Stjörnunni og gengur í raðir Vals eftir tímabilið. Dagur er sonur Garðars Jóhannssonar sem var mikill markaskorari. Flest mörk Dags komu fyrri hluta Lengjudeildarinnar og hann skoraði aðeins eitt mark eftir tólftu umferð. - Jóhann Þór Arnarsson skoraði tíu mörk og var helsti markaskorari HK seinni hlutann.

Þróttur - Liam Daði Jeffs 9 mörk í 22 leikjum
Hinn 19 ára gamli Liam Daði, sonur Ian Jeffs, er markahæstur Þróttara á tímabilinu þó hann hafi ekki alltaf átt fast sæti í byrjunarliðinu. Viktor Andri Hafþórsson og Aron Snær Ingason eru með sex mörk hvor.

Oftast í liði umferðarinnar

HK - Þorsteinn Aron Antonsson (4)
Varnarmaðurinn Þorsteinn Aron, 21 árs, var oftast HK-inga í liði umferðarinnar í sumar. Hann var oft öflugur í öftustu línu og skoraði að auki tvö mörk. Þessi Selfyssingur er á sínu öðru tímabili með HK.

Þróttur - Kári Kristjánsson (4)
Þessi 21 árs öflugi miðjumaður hefur verið algjör lykilmaður hjá Þrótti síðustu ár og erlend félagslið sýnt honum áhuga og lið í Bestu deildinni reynt að fá hann. Það er högg fyrir Þrótt að hann verður í banni í fyrri leiknum í kvöld. Ef Þróttur fer ekki upp er ómögulegt að sjá hann vera áfram hjá félaginu.

Í banni í kvöld

Þeir Njörður Þórhallsson (4 gul), Kári Kristjánsson (4) og Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson (4) verða í banni hjá Þrótti og þeir Atli Arnarson (rautt) og Brynjar Snær Pálsson (7) hjá HK.

Viðtöl við þjálfarana

Dómarinn:

Helgi Mikael Jónasson
Aðstoðardómarar: Egill Guðvarður Guðlaugsson og Birkir Sigurðarson.
Varadómari: Aðalbjörn Heiðar Þorsteinsson.
Athugasemdir
banner