Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, hrósaði Hallgrími Mar Steingrímssyni í viðtali eftir sigur KA gegn Vestra á sunnudag. Grímsi, eins og Hallgrímur Mar er oftast kallaður, hefur heilt yfir verið besti leikmaður KA síðustu ár og hefur verið heitur að undanförnu. Á dögunum var samningur hans við KA framlengdur og er hann samningsbundinn út næsta ár.
„Grímsi er ótrúlegur leikmaður, það er undarlegt hvað hann er góður. Grímsi er betri leikmaður í dag en hann var fyrir tíu árum þegar hann var á besta aldri. Ég fullyrði það að ekki nokkur leikmaður á Íslandi hefur bætt sig jafn mikið eftir þrítugt. Hann er orðinn virkilega góður leikmaður," sagði Haddi eftir leikinn gegn Vestra. Grímsi verður 35 ára í næsta mánuði.
Tímabilið 2021 skoraði hann ellefu mörk í deildinni, níu mörk 2022, sjö mörk 2023, níu mörk í fyrra (22 leikir spilaðir) og er kominn með níu mörk á þessu tímabili.
„Grímsi er ótrúlegur leikmaður, það er undarlegt hvað hann er góður. Grímsi er betri leikmaður í dag en hann var fyrir tíu árum þegar hann var á besta aldri. Ég fullyrði það að ekki nokkur leikmaður á Íslandi hefur bætt sig jafn mikið eftir þrítugt. Hann er orðinn virkilega góður leikmaður," sagði Haddi eftir leikinn gegn Vestra. Grímsi verður 35 ára í næsta mánuði.
Tímabilið 2021 skoraði hann ellefu mörk í deildinni, níu mörk 2022, sjö mörk 2023, níu mörk í fyrra (22 leikir spilaðir) og er kominn með níu mörk á þessu tímabili.
Fótbolti.net ræddi við Grímsa og var hann spurður út í ummæli þjálfarans.
„Mér finnst vera fullmiklir aldursfordómar í íslenskum fótbolta, einhver voða tíska að spila ungum leikmönnum. Ég vil meina að reynsla vinni oft, þegar þú eldist veistu hvað þú þarft að gera, hvar þú átt að vera og þú þekkir leikinn miklu betur. Það vantar oft þekkinguna hjá ungum leikmönnum."
„Ég er sammála því að ég hef bætt mig eftir þrítugt, veit ekki hvort það sé meira en aðrir. Ég hef bara þroskast, hef hugsað betur um sjálfan mig og séð dæmi eins og hjá Ronaldo og hjá þessum gæjum. Með öllu mataræði, betri svefni og öðru þá getur maður lengt ferilinn."
„Ég er ekkert að fara að hætta á næstunni, ég hugsa vel um mig. Á recovery æfingum daginn eftir leik er ég að spila með liðinu, er í nægilega góðu standi til að vera með. Maður bætir spilamennskuna með aukinni þekkingu á leiknum."
Horfir í 100 mörkin
Grímsi er leikjahæsti leikmaður KA, sá markahæsti og sá stoðsendingarhæsti. Hvað drífur hann áfram?
„Ég elska að spila fótbolta, elska að standa mig vel og elska að vinna fótboltaleiki. Ég hata að tapa. Ég er hungraður, þó að maður vinni ekki endilega marga titla, þá vil ég vinna hvern einasta leik. Varðandi mig sjálfan, ég get ekki bætt mörgum metum við hjá KA, en ég er kominn með 75 mörk og vantar 25 mörk í 100. Eigum við ekki að segja bara að ég hætti þegar ég er kominn með 100 mörk í efstu deild? Ég er alveg að horfa í 100 mörkin, mér finnst ég alveg eiga nógu mörg ár eftir í fótbolta."
71 mark hefur Grímsi skorað fyrir KA í efstu deild og fjögur skoraði hann með Víkingi tímabilið 2015.
Vill vinna alla leiki, sama um hvað er spilað
KA er í 8. sæti þegar fimm leikir eru eftir. Hvað vill KA fá út úr síðustu leikjunum?
„Ég vil vinna alla leiki, ég fer inn á völlinn til þess að skora, leggja upp og vinna leikinn. Ég vil alltaf standa mig eins vel og ég get, þannig á það vera með alla. Það skiptir engu máli um hvað leikurinn er, hvort við séum orðnir öruggir eða ekki, þú átt alltaf að vilja sýna þig og standa þig sem best fyrir sjálfan þig. Svo þegar líður á munu einhverjir ungir strákar kannski fá tækifæri til að sýna að þeir séu tilbúnir í þetta; taki næsta skref og geti svo tekið enn meiri þátt á næsta ári," segir Grímsi.
Athugasemdir