Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 20. maí 2021 15:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Held ég hafi aldrei eytt jafnmiklum tíma í að greina neitt einasta lið"
Marki fagnað á sunnudag
Marki fagnað á sunnudag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viktor Örlygur var í hægri bakverði
Viktor Örlygur var í hægri bakverði
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Man of many names
Man of many names
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Hrafn skipti um taktík
Óskar Hrafn skipti um taktík
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrirliðinn Kári Árnason
Fyrirliðinn Kári Árnason
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur lagði Breiðablik að velli á sunnudaginn í 4. umferð Pepsi Max-deildarinnar. Víkingur vann 3-0 sigur og greindi ég mikla taktíska baráttu í leiknum.

Taktík Víkinga heppnaðist mjög vel, sérstaklega í fyrri hálfleik, og hafði Breiðablik fá svör við leik Víkinga. Það vakti sérstaka athygli að Viktor Örlygur Andrason var í hægri bakverði og þar fyrir framan var Halldór Jón Sigurður Þórðarson á kantinum. Dóri var frábær, sérsaklega í fyrri hálfleik, og lagði upp eitt mark.

Ég heyrði í Arnari Gunnlaugssyni, þjálfara Víkinga, í dag og spurði hann út í leikinn síðasta sunnudag og byrjaði á að spyrja út í þá Viktor og Dóra.

Ein af þessum ákvörðunum sem heppnast eða ekki
„Kalli (Karl Friðleifur) mátti ekki spila þennan leik og ég vildi halda mér við fjögurra manna varnarlínu. Það hefur gengið ágætlega hjá okkur í sumar. Þetta er ein af þessum ákvörðunum sem manni dettur í hug, annað hvort heppnast þetta eða heppnast ekki," sagði Arnar um að spila Viktori í hægri bakverði.

„Ákvörðunin var aðallega tekin út frá því að hann er sterkur fótboltaheili, góður á bolta í uppspili og er sterkari varnarmaður en hann kannsi heldur sjálfur. Þetta var ákveðin taktík til að hafa hann meira hluti af uppspilinu frekar en stöðuna varnarlega. Við vildum draga leikmenn aðeins út úr svæðum sbr. eins og í fyrsta markinu.“

Tímdi ekki að fórna eiginleikum Dóra í bakvörðinn
„Mér finnst Dóri búinn að taka það miklum framförum sóknarlega og ég vil spila með tvo kantmenn. Ég hef ekki leynt með þá skoðun mína að mér finnst það best. Ég vildi fá víddina hægra megin í gegnum Halldór. Hann er fljótur og áræðinn, óútreiknanlegur. Ég tímdi ekki alveg að fórna því í bakvörðinn sem hefði kannski verið eðlilegra.“

„Dóri var mjög flottur í fyrri hálfleiknum, hann var kraftmikill og fékk gott sjálfstraust þegar hann lagði upp markið, var ógnandi í kjölfarið. Hann er líka búinn að bæta varnarleikinn mjög mikið, hjálpar mjög mikið í pressu og í varnarfærslum. Það er ekki bara sóknarlegs eðlis sem hann er í liðinu.“


Ég skildi Arnar vel þegar hann hélt áfram eftir að hafa talað um Viktor og Dóra. Sigurinn var mikill liðssigur.

„Það er erfitt samt að tala um einn eða tvo leikmenn í svona leik. Til að vinna svona gott lið eins og Blikar eru þá þarftu alla leikmenn tipp topp."

Aldrei eytt jafnmiklum tíma í að greina andstæðing
„Það er hrós á Blikana og það starf sem Óskar er búinn að vinna að ég held ég hafi aldrei eytt jafnmiklum tíma í að greina neitt einasta lið eins og fyrir þennan leik. Hann er með endalaust af möguleikum og endalaust af góðum leikmönnum.“

Talandi um það, Breiðablik skipti yfir í fjögurra manna vörn eftir tuttugu mínútur. Fannst þér það hrós á þitt upplegg?

„Ég veit það ekki alveg. Ég held að þegar tvö góð lið mætast þá er þetta bara eintóm skák í 90 mínútur. Leikurinn hefði alveg eins getað endað þannig að við hefðum þurft að breyta um taktík. Ég held að góð lið eru með Plan A, Plan B og Plan C."

„Mér fannst þetta frekar hugrekki hjá Óskari að gera þetta strax. Oftar en ekki sér maður þjálfara reyna að bíða fram að hálfleik þegar kannski er allt er tapað. Mögulega skilaði þessi breyting sér í því að við vorum ekki 2, eða 3-0 eins og stefndi í. Mér fannst þetta mjög jákvætt þegar hann gerði þessar breytingar. Ég leit ekki á það eins og hann væri að viðurkenna einhvern ósigur, hann var bara að reyna bregðast við.“



Kristall Máni Ingason

Má færa rök í báðar áttir
Hvernig sást þú atvikið þegar Kristall Máni fékk að líta gula spjaldið fyrir leikaraskap?

„Ég horfði á þetta vel og vandlega í sjónvarpinu eftir á. Það má færa rök í báðar áttir. Mér fannst hann koma honum úr jafnvægi og fólk þarf að átta sig á því að á mikilli ferð þarf lítið til að menn detti. Hann fer í öxlina á honum, mjög klókur og þegar Kristall finnur snertinguna þá dettur hann kannski með leikrænum tilburðum og þess vegna fékk hann ekki vítið.“

Láttu mig fá Kára heilan og þá munum við ná árangri
Kári Árnason var feikilega öflugur í leiknum og eins og hann hafi litið á það sem ákveðna áskorun að eiga við Thomas Mikkelsen. Það hefur verið algengt í byrjun móts að menn séu að nefna hina og þessa sem bestu miðverði deildarinnar.

„Hann er helpeppaður núna þetta tímabilið. Vill bæta upp fyrir síðasta tímabil og er þvílíkur leiðtogi. Hann er í góðu standi og í toppformi."

„Ég meina það segir sig sjálft að sá sem er númer eitt valinn í landsliðið að þá hlýtur sá aðili að vera besti miðvörður í deildinni þegar hann er í toppstandi. Ég á eftir að hitta mann sem á eftir að rökræða það við mig,“
sagði Arnar og hló.

„Láttu mig fá Kára Árna heilan og þá munum við ná góðum árangri, ég held að það sé engin spurning,“ sagði Arnar.

Nánar var rætt við Arnar um meiðsli í leikmannahópnum og komandi leik gegn KA. Þau svör hans birtast seinna í dag.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner