Tveir leikmenn Vestra þurftu að fara á sjúkrahús eftir að leik liðsins við Fram í Bestu deildinni lauk í gær.
Arnór Borg Guðjohnsen hafði legið meiddur bak við endalínuna í dágóðan tíma og notið aðhlynningar þegar flautað var af. Við lokaflautið fékk framherjinn Kristoffer Grauberg höfuðhögg.
Arnór Borg Guðjohnsen hafði legið meiddur bak við endalínuna í dágóðan tíma og notið aðhlynningar þegar flautað var af. Við lokaflautið fékk framherjinn Kristoffer Grauberg höfuðhögg.
Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, gekk að stúkunni, bað fólk um hljóð og kallaði eftir hvort læknir væri til taks í stúkunni.
Enginn slíkur gaf sig fram en Andri Steinn Birgisson fyrrverandi fótboltamaður og þjálfari sem starfar hjá slökkviliðinu stökk niður úr stúkunni um leið og naut aðstoðar Kyle Mclagan, varnarmanns Fram.
Þegar hann kom út á völl stóð framherjinn stóri, Grauberg, upp og gekk sjálfur af velli en ræddi við Andra Stein sem hugaði að honum.
Eftir að allt var afstaðið þar var hægt að beina athyglinni aftur að Arnóri Borg sem þurfti að fara á börum. Þá vantaði fleiri á börurnar og Sigurður Hrannar Björnsson formaður meistaraflokksráðs karla hjá Fram stökk til og aðstoðaði við að bera Arnór Borg af velli.
Að lokum kom sjúkrabíll sem Arnór og Grauberg deildu upp á sjúkrahús þar sem hugað var að þeim. Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, var spurður út í þetta í viðtali eftir leik og sagði þá:
„Þeir lenda haus í haus inn í teig. Svo svimaði honum inn á vellinum og lagðist niður. Hann var aðeins vankaður. Líklega heilahristingur," sagði Davíð Smári um Grauberg. „Arnór Borg fór aftan í læri. Það er pínu svekkjandi en sem betur fer ekki alvarleg meiðsli, ekkert í neinu eða neitt svoleiðis. Við héldum það. fyrst en það er sem betur fer ekki það."
Það kom vel út úr myndatökum hjá Grauberg og ef allt fer vel þá gæti hann farið að æfa aftur fyrir helgi. Það er óvíst hversu lengi Arnór verður frá en hann fer vonandi í myndatöku í dag.
Hafliði Breiðfjörð var á vellinum í gær og tók þessar myndir sem fylgja með fréttinni.
Athugasemdir