Sancho, Van de Beek, Greenwood, Soule, Todibo, Müller og fleiri góðir koma við sögu í slúðri dagsins
   mið 20. september 2023 15:53
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Engar breytingar í pípunum" hjá Gróttu
Fimm leikmenn að renna út á samningi
Lengjudeildin
watermark Brazell er samningsbundinn út næsta tímabil.
Brazell er samningsbundinn út næsta tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Aron Bjarki gekk í raðir Gróttu fyrir síðasta tímabil.
Aron Bjarki gekk í raðir Gróttu fyrir síðasta tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
watermark Addi bomba, Arnar Þór Helgason.
Addi bomba, Arnar Þór Helgason.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
watermark Pétur Rögnvaldsson.
Pétur Rögnvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Tímabilinu hjá Gróttu í Lengjudeildinni lauk á laugardag og niðurstaðan 9. sætið. Fótbolti.net ræddi við Þorstein Ingason sem er formaður knattspyrnudeildar Gróttu og spurði hann út í leikmanna- og þjálfaramál.

„Það er bara áfram gakk, Chris er með samning út næsta ár. Við erum bara að klára að teikna upp starfsliðið í kringum hann. Við viljum ganga frá því eins hratt og við mögulega getum. Það er því raun ekkert að frétta, höldum bara plani og engar breytingar í pípunum. Það allavega kæmi mér á óvart," sagði Þorsteinn.

Englendingurinn Brazell var að klára sitt annað tímabil sem aðalþjálfari Gróttu en áður var hann aðstoðarmaður Ágústs Gylfasonar og yfirþjálfari yngri flokka.

Vildu fleiri stig
Grótta endaði þremur stigum fyrir ofan fallsæti, sigrarnir voru sex og stigin 26. Er ánægja með tímabilið á Seltjarnarnesi?

„Við erum ánægð með ýmislegt og margt í spilamennskunni sem við getum ekki annað en verið ánægð með. Stigasöfnunin sem slík var kannski undir væntingum, hefðum viljað sjá okkur taka fleiri stig. Það eru alls konar sögulínur sem við erum ofboðslega ánægð með, en stigasöfnunin var aðeins undir væntingum þetta tímabilið."

Vilja framlengja við alla
Fimm leikmenn eru að renna út á samningi í lok árs hjá Gróttu. Er einhver af þeim sem verður 100% ekki áfram?

„Nei. Kristófer Melsted og Gunnar Jónas voru að koma til baka úr meiðslum, krossbandaslitum annars vegar og liðþófa hins vegar. Við sjáum bara hvar þeir eru staddir og stemmdir. Við vonumst til að framlengja við alla þessa fimm leikmenn."

„Axel Sigurðarson var að koma frá Bandaríkjunum og gerði eins árs samning við okkur. Hann var að koma úr meiðslum og við erum bara að tala við hann um mögulegt framhald."

„Arnar Helgason er Gróttumaður í gegn og er að skoða sín mál. Það getur vel verið að hann fari jafnvel erlendis. Hugmyndin er að teikna upp plan með honum þar sem hann yrði kominn til baka fyrir næsta sumar og verði með okkur. Hann yrði þá vonandi í einhverjum fótbolta í vetur, hvar sem það verður."


Fimmti leikmaðurinn sem er að renna út á samningi var svo Júlí Karlsson sem spilaði ekkert í sumar.

„Það urðu breytingar hjá Júlí þegar fjölskyldan stækkaði síðastliðið vor og hann fór í smá fæðingarorlof. Við eigum vonandi eftir að sjá hann aftur á knattspyrnuvellinum og það er eins með hann og aðra, við eigum eftir að klára samtalið með honum."

Munu ræða við Aron Bjarka
Er einhver sem er samningsbundinn lengur en vitað er að verði ekki áfram?

„Nei, Aron Bjarki gerði tveggja ára samning fyrir þetta tímabil. Hann var búinn að gefa það í skyn að það væri ekkert útilokað að þetta yrði hans síðasta tímabil. Það er samtal sem við eigum eftir að klára með honum."

Sjá einnig:
Aron Bjarki vill halda áfram - „Þarf að ræða þetta með fjölskyldunni"

„Fyrir síðasta tímabil var mikill hasar og við framlengdum við flesta af okkar leikmönnum. Við erum að vonast til að það verði ekki neinar kúvendingar hjá okkur," sagði Þorsteinn.

Ívan Óli Santos var lánaður til ÍR í glugganum og stóð sig vel með liðinu sem tryggði sér sæti í Lengjudeildinni. Þorsteinn svaraði neitandi þegar hann var spurður hvort ÍR hefði sett sig í samband upp á möguleikann á því að halda Ívani.

Leita að þjálfara fyrir kvennaliðið
Pétur Rögnvaldsson hætti sem þjálfari kvennaliðs Gróttu á dögunum. Það stendur yfir leit að nýjum þjálfara.

„Pétur ætlar að taka sér frí frá þjálfun í bili. Við erum bara að leita, erum ekkert komin lengra en það. Við reynum að átta okkur á því hvers konar týpu við viljum fá í starfið. Við erum rétt að byrja, engar eiginlegar viðræður við einn eða neinn, bara þreifingar. Við höfum hent í púkkið alls konar nöfnum, alls konar nöfn á lista, hvort sem það er raunhæft að við náum í viðkomandi eða ekki," sagði Þorsteinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner