„Þær eru í A-deild í Þjóðadeildinni á meðal 16 bestu liða Evrópu og það gefur augaleið að þetta er gott lið," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, á fréttamannafundi í Laugardalnum á morgun.
Annað kvöld spilar Ísland við Wales í fyrsta leik sínum í Þjóðadeildinni. Leikið er á Laugardalsvelli.
Annað kvöld spilar Ísland við Wales í fyrsta leik sínum í Þjóðadeildinni. Leikið er á Laugardalsvelli.
Búist er við hörkuleik en þessi lið gerðu markalaust jafntefli í vináttulandsleik fyrr á þessu ári.
„Þetta verður erfiður leikur á morgun og við verðum að sýna góða frammistöðu til að ná í góð úrslit," sagði Steini jafnframt en hvernig er staðan á hópnum?
„Það eru einhver hnjösk hér og þar. Það kemur í ljós í fyrramálið hvort þær séu allar 100 prósent klárar. Við tökum stöðuna í dag og á morgun. Við verðum allavega með gott lið á morgun og verðum klárar í þetta."
„Æfingavikan hefur rúllað fínt og það er eðlilegur gangur á þessu, eins og alltaf. Það er ekkert nýtt eða stórkostleg vandamál sem hafa komið upp."
Leikmenn í ensku úrvalsdeildinni
Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði, var einnig með á fundinum. Hún býst við erfiðum leik gegn Wales.
„Það er ógeðslega gaman að fara inn í keppni þar sem eru alvöru leikir, eitthvað sem skiptir máli. Það gerir það að verkum að við komum enn tilbúnari í þetta. Ég er mjög spennt að byrja þetta og spila góða leiki við alvöru lið. Við þurfum að eiga frábæra leiki. Ég er mjög spennt fyrir þessu. Við erum þannig lið að ef við spilum vel og erum með allt okkar á hreinu, þá getum við náð í góð úrslit á móti hvaða liði sem er. Wales er svipað lið og við að styrkleika. Við þurfum að spila vel ef við ætlum að ná í úrslit. Þetta verður örugglega jafn leikur þannig að litlu hlutirnir geta skipt miklu máli," sagði Glódís.
„Núna erum við ekki búnar að fara á lokafund en við höfum horft á klippur af þeim. Þær eru með fína leikmenn sem eru að spila í ensku úrvalsdeildinni. Þær eru með leikmenn á góðum stalli. Þær virðast vera baráttulið og það er líka eitthvað sem við viljum að einkenni okkur. Miðað við úrslit að undanförnu þá erum við að fara inn í hörkuleik. Við þurfum að fara inn í leikinn með það hugarfar að það séu engar afsakanir, við þurfum að gera þetta 100 prósent."
Þær eru á hæsta stalli á Evrópu
Það hefur mikil reynsla farið úr hópnum en Steini á von á því að hópurinn sé klár í þetta verkefni.
„Ég er bjartsýnn. Ég held að hópurinn sé klár í þetta og þeir leikmenn sem hafa spilað minna hlutverk, þær þurfa að stíga upp. Ég hef fulla trú á þær geri það og að við fáum fína frammistöðu á morgun. Ég held að leikmenn séu klárir um þetta verkefni. Við þurfum að spila vel, vera með okkar gildi og okkar hluti á hreinu. Við þurfum að fórna öllu í þetta. Ef við gerum það og erum góð liðsheild, þá náum við í góð úrslit," sagði Steini.
Hann vonast til að fólk geri sér ferð í Laugardalinn á morgun og sýni liðinu stuðning.
„Það skiptir máli fyrir fótboltann að konurnar fái þennan stuðning. Þær eru á hæsta stalli í Evrópu getulega séð. Við þurfum sem þjóð að sýna það og sanna að við erum íþróttaþjóð og að við styðjum fólk sama hvað kyn það er. Ég hvet fólk til að koma sér af lyklaborðinu og koma sér á völlinn," sagði landsliðsþjálfarinn en hægt er að kaupa miða með því að smella hérna.
Athugasemdir