fim 21. október 2021 17:22
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Sif tekur ákvörðun eftir tímabilið - Ætlar sér á EM
Icelandair
Á landsliðsæfingu í vikunni.
Á landsliðsæfingu í vikunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Kristianstad.
Í leik með Kristianstad.
Mynd: Kristianstad
Sif Atladóttir er á heimleið eftir áratug hjá Kristianstad í Svíþjóð. Þar áður var hún hjá FC Saarbrucken í Þýskalandi. Síðast lék hún á Íslandi sumarið 2009 með Val.

Eiginmaður Sifjar, Björn Sigurbjörnsson, mun þjálfa kvennalið Selfoss á næsta tímabili en Sif hefur ekki tekið ákvörðun hvar hún mun spila en ljóst er að þau munu búa á Selfossi.

Hvenær skýrist það hvar þú spilar næsta sumar?

„Einhvern tímann eftir tímabilið hjá mér. Ég hef heyrt í félögum en ég mun ekki taka lokaákvörðun fyrr en ég er búin með mitt tímabil í Svíþjóð. Þá mun ég setjast niður og íhuga stöðuna alvarlega. Ég á tvo leiki eftir [síðasti leikur er 6. nóvember] þannig það er smá bið en vonandi kemur það svo í ljós áður en ég kem heim."

Muntu ýta landsliðinu til hliðar eftir að þú kemur heim til Íslands?

„Nei, alls ekki. Ég stefni klárlega á EM á næsta ár og á meðan ég er frísk, líður vel, hef gaman af þessu og er að standa mig hjá mínu félagsliði þá er ég alltaf tilbúin að spila fyrir landsliðið ef krafta minna er óskað," sagði Sif í Teams-viðtali í gær.

Sjá einnig:
„Ef hún verður heil og í góðu standi skiptir það ekki máli"
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner