Ísland 1 - 0 Wales
1-0 Glódís Perla Viggósdóttir ('18)
Lestu um leikinn: Ísland 1 - 0 Wales
Ísland tók á móti Wales í fyrstu umferð í A-deild Þjóðadeildarinnar og byrjuðu gestirnir betur, en Stelpurnar okkar gáfu ekki færi á sér og svöruðu með því að taka forystuna á 18. mínútu.
Glódís Perla Viggósdóttir, sem er ein af betri varnarmönnum heimsfótboltans, skoraði markið með skalla eftir fyrirgjöf Amöndu Jacobsen Andradóttur í kjölfar stuttrar hornspyrnu.
Walesverjar voru mikið með boltann og komust oft í álitlegar sóknarstöður en tókst ekki að spila sig í gegnum þéttan og vel skipulagðan varnarmúr Íslendinga.
Síðari hálfleikurinn var jafnari þar sem bæði lið gáfu lítið af færum á sér. Velska liðið skapaði ekki mikla hættu við mark Íslands og urðu lokatölur 1-0.
Frábær byrjun fyrir Ísland þó að sigurinn hafi ekki verið sérlega sannfærandi. Næstu leikir gegn Danmörku og Þýskalandi verða talsvert erfiðari.