mið 23. júní 2021 20:24
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bandaríkin: Gunnhildur lagði upp fyrir Mörtu
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir spilaði að venju allan leikinn fyrir Orlando Pride er liðið fór með sigur af hólmi gegn Kansas City í bandarísku deildinni í kvöld.

Orlando er áfram taplaust á toppi deildarinnar þegar liðið er búið að spila sjö leiki.

Sydney Leroux skoraði tvennu fyrir Orlando Pride undir lok fyrri hálfleiks og var staðan 2-1 þegar flautað var til hálfleiks.

Kansas var enn inn í leiknum alveg fram á 85. mínútu en þá skoraði Marta, ein besta fótboltakona allra tíma, eftir undirbúning frá Gunnhildi.

Gunnhildur hefur farið vel af stað með Orlando en hún spilaði í hægri bakverðinum í kvöld. Orlando er sem fyrr segir á toppi deildarinnar með 15 stig eftir sjö leiki, taplaust.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner