
„Auðvitað bara gleði að hafa klárað þetta. Þetta voru dýrmæt þrjú stig hérna í dag á móti erfiðu FH liði“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, eftir nauman sigur á nýliðum FH í Kópavoginum í kvöld.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 2 FH
„Mér fannst vanta pínu gæði í leikinn. Okkur gekk ferlega illa að láta boltann rúlla og halda í hann. Hvort að vindurinn hafi þessi áhrif eða hvað“ sagði hann svo en veðurblíðan var ekki mikil í Kópavoginum í dag frekar en annars staðar og virtist mikill vindur hafa áhrif á bæði lið í leiknum.
„Seinni hálfleikurinn fannst mér vera öðruvísi. Við héldum betur í boltann, við sköpuðum fleiri færi og að mínu mati sanngjarnt að við höfum farið með sigurinn af hólmi.“
Næsti leikur hjá Blikum er í bikarnum en þar eiga þær leik við Lengjudeildar lið Fram. Aðspurður hvort að það hafi verið draumadráttur segir hann: „Það verður bara að koma í ljós. Bikar er alltaf bikar og allt getur gerst þannig að það verður bara næsta verkefni og við byrjum að fókusera á það á morgun.“
Viðtalið má sjá í heild sinni hérna fyrir ofan.