
Selfoss er búið að krækja í afar fjölhæfan leikmann sem kemur úr röðum KF og mun auka breiddina fyrir komandi leiktíð í Lengjudeildinni.
Sá heitir Hrannar Snær Magnússon og er 21 árs gamall. Hann getur leyst ýmsar stöður af hólmi á vellinum hvort sem um ræðir á miðjunni eða í vörninni.
Hrannar Snær á 30 leiki að baki í 2. deildinni síðustu þrjú ár en hann hefur ekki náð að spila fullt tímabil vegna háskólanáms í Bandaríkjunum. Þar stundar hann nám við University of the Cumberlands og spilar fótbolta í háskóladeildinni. Náminu lýkur í vor og þá hefur Hrannar sumarið til að einbeita sér að fótbolta.
„Það er mikil tilhlökkun að fá Hrannar til okkar í vor þegar hann hefur lokið sínu námi. Hann mun verða góð viðbót við okkar öfluga hóp,” segir Dean Martin, þjálfari Selfoss.