banner
   sun 26. mars 2023 17:55
Brynjar Ingi Erluson
Stærsti sigur Íslands í mótsleik frá upphafi
Icelandair
Aron Einar skoraði þrennu og fagnar henni hér
Aron Einar skoraði þrennu og fagnar henni hér
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Liechtenstein 0 - 7 Ísland
0-1 Davíð Kristján Ólafsson ('3 )
0-2 Hákon Arnar Haraldsson ('38 )
0-3 Aron Einar Gunnarsson (f) ('48 )
0-4 Aron Einar Gunnarsson (f) ('67 )
0-5 Aron Einar Gunnarsson (f) ('73 , víti)
0-6 Andri Lucas Guðjohnsen ('85 )
0-7 Mikael Egill Ellertsson ('87 )
Lestu um leikinn

Íslenska karlalandsliðið vann auðveldan og sannfærandi 7-0 stórsigur á Liechtenstein í undankeppni Evrópumótsins í Vaduz í dag. Fyrirliðinn, Aron Einar Gunnarsson, gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í 101. landsleik sínum.

Liechtenstein var engin mótstaða fyrir Ísland. Davíð Kristján Ólafsson skoraði fyrsta landsliðsmark sitt á 3. mínútu. Aron Einar átti langan bolta inn í teiginn sem varnarmaður Liechtenstein skallaði úr teignum og Alfreð Finnbogason. Hann lagði boltann á Davíð sem virtist reyna fyrirgjöf, en boltinn fór af varnarmanni og í netið.

Íslenska liðið ógnaði marki nokkrum sinnum í fyrri hálfleiknum og kom Alfreð boltanum í netið á 15. mínútu en hann var dæmdur brotlegur í aðdragandanum og stóð því markið ekki.

Hákon Arnar Haraldsson gerði fyrsta mark sitt á 38. mínútu og aftur var það Aron sem kom að því. Hann kom með glæsilega fyrirgjöf inn í teiginn á Hákon, sem lagði boltann fyrir sig áður en hann lagði boltann í hægra hornið. Hákon skoraði annað mark stuttu síðar með góðu skoti en hann, eins og Alfreð, var dæmdur brotlegur í aðdragandanum.

Strax í byrjun síðari hálfleiks kom Aron Einar með þriðja mark Íslands með skalla eftir hornspyrnu frá Jóni Degi Þorsteinssyni og var nákvæmlega sama uppskrift á 67. mínútu er Aron stýrði hornspyrnu Jóns í netið.

Íslenska liðið fékk vítaspyrnu á 72. mínútu leiksins og var það auðvitað Aron sem var settur á punktinn. Vítið var öruggt og fór Benjamin Büchel, markvörður Liechtenstein, í vitlaust horn.

Aron hafði aðeins skorað tvö landsliðsmörk í 100 leikjum en gerði þrjú mörk í 101. leiknum. Hann fékk heiðursskiptingu í kjölfarið og kom Ísak Bergmann Jóhannesson inná í hans stað.

Undir lok leiksins skoruðu varamennirnir Andri Lucas Guðjohnsen og Mikael Egill Ellertsson. Andri hljóp á sendingu Davíðs Kristjáns á meðan Mikael skallaði fyrirgjöf Jóns Dags í netið.

Stærsti sigur Íslands í keppnisleik staðreynd, 7-0, og aldeilis búið að laga markatöluna eftir 3-0 tapið gegn Bosníu og Hersegóvínu í fyrstu umferðinni. Fyrsti sigur Íslands í undankeppninni og virkilega flott að klára marsverkefnið á þennan hátt.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner