Karolína Lea var svekkt í leikslok og hér hughreystir Ásmundur Haraldsson aðstoðarlandsliðsþjálfari hana.
„Þetta var ógeðslega erfitt. Það fór rosalega mikil orka í að hlaupa og verjast," sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir framherji Íslands eftir stórt tap gegn Þýskalandi í Þjóðadeildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Þýskaland 4 - 0 Ísland
„Við vorum ekki að halda boltanum mikið svo það fór öll orkan í að verjast í dag. Það bjuggust ekki allir við að við næðum í stig hingað svo við getum ekki pirrað okkur svo mikið á þessu."
Fyrstu 10-15 mínúturnar voru fínar hjá Íslandi en eftir að Þýskaland komst yfir fór leikurinn frá okkur.
„Já, við vorum ekki að opna okkur mikið þó þær hafi komið með krossa sem við náðum að verjast vel. Þær skoruðu gott mark, ég þekki þennan leikmann vel og hún er með rosalega góð skot sem er erfitt að verjast. Hún getur sparkað bæði með hægri og vinstri og það er erfitt að verjast henni. Hún átti frábæran leik og ef maður skoðar mörkin aftur þá eru þetta pirrandi mörk. Þetta sýnir gæðin þeirra og við töpuðum á móti betra liði í dag."
Nánar er rætt við hana í spilaranum að ofan en hún segir þýska liðið haf spilað gróft.
„Við vorum ekki að opna okkur mikið og ætluðum að halda áfram að verjast þétt en vera sterkari í návígum. Þær voru helvíti grófar og við hefðum átt að vera grófari til baka. Það var mikið af olnbogaskotum og einhverju kjaftæði og það var súrt að hafa ekki gefið þeim það til baka."
Athugasemdir