sun 27. september 2020 17:24
Aksentije Milisic
England: Vardy með þrennu í stórsigri gegn Man City
Tielemans og Vardy fagna í dag.
Tielemans og Vardy fagna í dag.
Mynd: Getty Images
Walker brýtur á Vardy.
Walker brýtur á Vardy.
Mynd: Getty Images
Manchester City 2 - 5 Leicester City
1-0 Riyad Mahrez ('4 )
1-1 Jamie Vardy ('37 , víti)
1-2 Jamie Vardy ('54 )
1-3 Jamie Vardy ('58 , víti)
1-4 James Maddison ('77 )
2-4 Nathan Ake ('84 )
2-5 Youri Tielemans ('88 , víti)

Manchester City fékk Leicester í heimsókn á Etihad vellinum í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Gamli Leicester maðurinn Riyad Mahrez kom heimamönnum yfir með stórglæsilegu marki. Boltinn barst þá til hans eftir hornspyrnu og skaut hann með hægri fæti, beint upp í samskeytin fjær, óverjandi fyrir Kasper Schmeichel í marki gestanna.

Gestirnir jöfnuðu hins vegar metin á 37. mínútu og var það markahrókurinn Jamie Vardy sem skoraði úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. Kyle Walker gerðist þá brotlegur og staða 1-1 í hálfleik.

Leicester komst yfir á 54. mínútu með sínu öðru skoti á markið í leiknum. Timothy Castagne átti þá fyrirgjöf sem Vardy mætti á nærstönginni og kláraði snyrtilega framhjá Ederson.

Vardy var ekki hættur og á 58. mínútu fiskaði hann aftur vítaspyrnu og nú var Eric Garcia brotlegur. Aftur fór Vardy á punktinn og skoraði. Ederson í rétt horn en það dugði ekki til.

Leicester hélt áfram og á þrettán mínútum fyrir leikslok skoraði James Maddison glæsilegt mark. Hann fékk þá boltann fyrir utan teig og skaut mögnuðu skoti upp í fjær hornið. Magnað mark frá Maddison.

Man City gafst ekki upp og minnkaði Nathan Ake muninn eftir hornspyrnu á 84. mínútu en þremur mínútum síðar fékk Leicester hvorki meira né minna en sína þriðju vítaspyrnu í leiknum. Benjamin Mendy braut þá klaufalega á James Maddison. Yuri Tielemans fór á punktinn og skoraði fimmta mark Leicester.

Sigur Leicester því staðreynd í þessum magnaða leik og er þetta í annað skiptið á ferlinum sem Jamie Vardy gerir þrennu gegn Man City.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner