Þrír orðaðir við Man City - Chelsea og Liverpool á eftir Kerkez - Fer Vlahovic til Arsenal?
   mán 27. nóvember 2023 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimir: Erfitt að breyta því, hvað þá fyrir útlending
Heimir er að gera flotta hluti með Jamaíku.
Heimir er að gera flotta hluti með Jamaíku.
Mynd: Getty Images
Jamaíka fagnar marki.
Jamaíka fagnar marki.
Mynd: Getty Images
Michail Antonio, leikmaður West Ham, er á meðal leikmanna í liðinu hjá Heimi.
Michail Antonio, leikmaður West Ham, er á meðal leikmanna í liðinu hjá Heimi.
Mynd: Getty Images
Heimir hefur stýrt Jamaíku frá því í september í fyrra.
Heimir hefur stýrt Jamaíku frá því í september í fyrra.
Mynd: Getty Images
Guðmundur Hreiðarsson er markvarðarþjálfari Jamaíku.
Guðmundur Hreiðarsson er markvarðarþjálfari Jamaíku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markmiðið er að komast á HM 2026.
Markmiðið er að komast á HM 2026.
Mynd: EPA
Heimir Hallgrímsson og lærisveinar hans í landsliði Jamaíku unnu magnaðan sigur gegn Kanada í síðustu viku og tryggðu sér um leið bæði undanúrslitasæti í Concacaf Þjóðadeildinni og þátttökurétt í Copa America.

Fyrir einvígið gegn Kanada talaði Heimir um að það gæfi sér og sínu liði forskot í undirbúningi fyrir HM 2026 að komast í Copa America, Suður-Ameríkubikarinn. Þetta var í fyrsta sinn sem Jamaíka nær að vinna Kanada og aðeins í þriðja sinn sem liðið vinnur útileik gegn liði frá Norður-Ameríku.

Heimir mætti í útvarpsþáttinn Fótbolta.net á laugardag þar sem hann ræddi um þetta einvígi og starfið á Jamaíku almennt. Hann tók við Jamaíku í september í fyrra og hefur núna verið í rúmt ár í þessu starfi.

„Maður sefur nú yfirleitt lítið í þessum landsliðsferðum þegar það eru svona mikilvægir leikir. Þessi fyrsti dagur (heima) er búinn að fara meira og minna í það að sofa," sagði Heimir.

Lækir í staðinn fyrir götur
Jamaíka tapaði fyrri leiknum heima en náði að leggja Kanada að velli í útileiknum.

„Þetta var svolítið skrítið verkefni því við áttum heimaleik í fyrri leiknum og það kemur algjört úrhelli þegar leikurinn átti að vera spilaður. Við keyrðum læki í staðinn fyrir götur í áttina að vellinum. Þetta var eins og sundlaug," sagði Heimir um aðdragandann að fyrri leiknum.

„Við biðum í einhverja fjóra tíma á leikdegi eftir ákvörðun frá Concacaf hvort leikurinn yrði spilaður. Hann var svo ekki spilaður. Hann var settur á 11:30 morguninn eftir. Allur undirbúningur var rosa sérstakur. Við vorum búnir að bíða og bíða í frekar lélegum búningsklefa; ég er mjög stoltur af búningsklefanum á Laugardalsvelli ef við berum hann saman við búningsklefann á Jamaíku. Við fórum aftur upp á hótel og vöknuðum svo snemma. Þá var kominn steikjandi hiti, 30 stig, og það var brjálaður raki út af rigningunni."

„Þetta var rosa skrítinn undirbúningur og tempóið var mjög lágt, eðlilega. Menn voru ekki tilbúnir þar sem þetta var snemma um morguninn og dagurinn á undan var skrítinn. Við vorum ekki sáttir við frammistöðuna hjá okkur í þeim leik."

„Við reyndum bara að gera gott úr þessu. Þarna kemur inn reynslan að hafa búið í Vestmannaeyjum. Maður undirbjó oft leiki og svo var ófært. Við reyndum að gera eins gott úr þessu og hægt var. Þeir stóðu sig vel."

Frammistaðan var svo mun betri í seinni hálfleiknum þar sem Jamaíka vann stórkostlegan sigur gegn öflugu liði Kanada.

Langerfiðast í starfinu okkar
Menningin á Jamaíku er svo sannarlega öðruvísi en á Íslandi og hefur Heimir þurft að aðlagast henni. Aðstæður til fótboltaiðkunnar eru ekki þær bestu í landinu og það er svigrúm til bætingar hjá knattspyrnusambandinu þegar kemur að umgjörð. Þetta er stórt og mikið starf, og þetta er áhugavert verkefni.

„Það hefur verið langerfiðast í starfinu okkar að reyna að koma meiri faglegheitum á það sem þeir eru að gera. Það er svo erfitt að skilja umgjörð og hugarfar manna sem eru að spila og æfa á hæsta stigi ef þú hefur ekki séð það áður. Það er akkúrat það sem við erum að glíma við núna," segir Heimir en margir leikmenn liðsins eru að spila í efstu tveimur deildum Englands.

„Við erum með marga leikmenn sem eru að spila á hæsta stigi. Það dregur úr hvatningunni þeirra að koma á svona velli, þeir hafa aldrei stigið á svona vonda velli. Þeir æfa á betri völlum en við keppum á. Það er erfitt að halda virðingunni á verkefninu hjá þessum leikmönnum þegar þeir koma út í svona aðstæður; búningsklefinn, vallaraðstæður, umgjörðin, ferðalögin og svo framvegis. Þeir eru vanir miklu meiri gæðum og fagmennsku."

„Ég tengi þetta svolítið við það þegar við byrjuðum með íslenska landsliðið. Þá var reynt að bæta alla þætti og KSÍ tók þátt í því að reyna að bæta sig, bæta umgjörðina hjá sjúkrateyminu, búningastjóranum og öllu. Þeir eru vanir að gera þetta á sinn hátt og það er erfitt að breyta því, hvað þá fyrir útlending."

Það er alltaf endastöðin
Heimir segir að það sé mikilvægt fyrir liðið að komast á þessi mót, Þjóðadeildina og Copa America. Það muni hjálpa liðinu í vegferðinni að komast á HM 2026.

„Maður er auðvitað alltaf dæmdur út frá árangri inn á vellinum. Liðið er kannski að standa sig vel þó það vinni ekki leikina en maður er alltaf á endanum dæmdur út frá úrslitum. Það var því gaman að geta komist inn á þessi mót. Það gefur okkur mikið, möguleika á því að keppa við góð lið, möguleika á því að vera lengi saman til að bæta okkur og auðvitað skiptir þetta miklu máli fjárhagslega fyrir sambandið," segir Heimir.

„Þessir strákar hafa margir hverjir verið næstum því. Þeir hafa aldrei náð að stíga þetta skref. Jamaíka hefur tvisvar áður tekið þátt á Copa America en þá var þeim bara boðið. Þetta er í fyrsta sinn sem það er keppt um að komast þangað inn. Mið-Ameríka á ekki að vera í þessari keppni en það er mikil samvinna á milli heimsálfa."

„Samningurinn minn var eiginlega bara sá að koma liðinu á HM. Það var ekki verið að biðja um neitt annað. Það er alltaf endastöðin og það er það sem þá dreymir um."

Heimir var spurður út í fjölmiðlaumhverfið á Jamaíku en það er svo sannarlega áhugavert.

„Fjölmiðlaumhverfið er klikkað, alveg magnað. Allir sem hafa áhuga á fótbolta eru með Youtube-rás þar sem þeir segja sína skoðun. Það skiptir ekki máli hvort þeir hafi vit á því eða ekki. Þeir eru með áskrifendur og svona. Það er annað hvort í ökkla eða eyra þarna. Annað hvort ertu hetja eða hálfviti. Ég fékk að vera bæði í eina viku núna, síðustu viku," sagði Heimir.

Gummi er einstakur
Guðmundur Hreiðarsson fylgdi Heimi í verkefnið með Jamaíku og segir þjálfarinn að það hafi verið mjög mikilvægt. Guðmundur er markvarðarþjálfari Jamaíku.

„Gummi er einstakur á allan hátt. Hann er góður vinur og skilur mig vel. Það er ofboðslega mikilvægt þegar þú ert í svona umhverfi að hafa einhvern sem þú getur talað við og einhvern sem getur létt á þér," segir Heimir.

„Svo sem fagmaður er hann alveg magnaður. Það sem hann hefur í sér er að hann getur þjálfað öll getustig. Við erum með heimamenn á æfingum þar sem grunnurinn er kannski lélegur og hann getur farið í þann pakka. Svo er hann með Andre Blake sem er búinn að vera lengi að spila í Bandaríkjunum og þekkir bara það besta. Gummi er alveg eins góður með hann og með krakka. Hann kann allt verksviðið. Margir þjálfarar eru bara góðir á einum stað en hans verksvið er svo vítt. Hann er svo góður fagmaður og öllum markvörðum þykir svo vænt um hann. Hann tengist leikmönnum sínum svo vel."

Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Heimi í spilaranum hér fyrir neðan en það verður ótrúlega gaman að fylgjast með Jamaíku á Copa America á næsta ári.
Útvarpsþátturinn - Heimir Hallgríms gestur
Athugasemdir
banner
banner
banner