„Þetta var mjög skemmtilegur tími. Þetta var upp og niður. Stundum gaman, stundum ekkert sérstaklega gaman.“
Fyrrum atvinnu- og landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason var í upphafi árs ráðinn sem nýr yfirmaður fótboltamála hjá norska stórliðinu Rosenborg.
Hann kemur til norska félagsins eftir um eins og hálfs árs starf hjá Breiðablik, þar sem hann gegndi hlutverki tæknilegs ráðgjafa. Alfreð er uppalinn hjá Breiðabliki og hélt út í atvinnumennsku eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með félaginu árið 2010.
Alfreð ræddi við Fótbolta.net á dögunum um uppeldisfélagið en hann segir félagið í góðum höndum og er spenntur fyrir framtíð félagsins.
Hann kemur til norska félagsins eftir um eins og hálfs árs starf hjá Breiðablik, þar sem hann gegndi hlutverki tæknilegs ráðgjafa. Alfreð er uppalinn hjá Breiðabliki og hélt út í atvinnumennsku eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með félaginu árið 2010.
Alfreð ræddi við Fótbolta.net á dögunum um uppeldisfélagið en hann segir félagið í góðum höndum og er spenntur fyrir framtíð félagsins.
Skilur við félagið á góðum stað
„Ég skil mjög sáttur við tímann hjá Blikum. Þetta var mjög skemmtilegur tími. En þetta var líka upp og niður. Stundum gaman, stundum ekkert sérstaklega gaman. En það er hluti af þessu. Ég var að vinna með mjög góðu fólki og finnst Breiðablik vera á mjög góðum stað í dag, með góð þjálfarateymi karla- og kvennamegin.
Ég á kannski eftir að gera þennan tíma betur upp þar sem maður hefur fengið lítinn tíma til þess. En mér fannst líka mikilvægt að fara á góðum nótum, þar sem voru góð samtöl við þá aðila sem eru mér næst í félaginu. Þau voru ánægð fyrir mína hönd að fá þetta tækifæri.“
Eyjó Héðins tekur við keflinu
Í kjölfar brottfarar Alfreðs hefur Eyjólfur Héðinsson tekið við hlutverki yfirmanns fótboltamála hjá Breiðabliki, eftir að hafa starfað sem deildarstjóri meistaraflokka félagsins í rúmt ár.
„Mér líst mjög vel á hann. Við unnum náið saman síðustu átján mánuði og við vorum mjög sammála um hvernig við sjáum framhaldið og framtíð Breiðabliks.
Mér fannst þetta frábær ákvörðun og ég held að Breiðablik sé í mjög góðum höndum með Eyjólf og að hann taki meira að sér. Hann er auðvitað búinn að vera mikið inn í öllu, þannig það verður mjög auðvelt fyrir hann að koma sér inn í allt.“
Aldrei kynnt ákveðin stefna
Alfreð var spurður um muninn á því að endursemja við Blikana fjóra, Kristin Steindórs, Kristin Jónsson og Andra Yeoman, annars vegar og að taka þá ákvörðun um að láta Damir fara og semja ekki við Gísla Eyjólfs.
„Þetta er alltaf hvert mál fyrir sig. Það hefur ekki verið kynnt nein sérstök stefna hjá Breiðabliki. Það hefur til dæmis ekki verið sett fram stefna um að byggja eingöngu á ungum leikmönnum eða eingöngu eldri leikmönnum.
Ég held að þetta hafi fyrst og fremst snúist um frammistöðu leikmanna. Hvernig staðan er miðað við þeirra leikstöðu inni á vellinum og ákvörðun tekin út frá því. Þegar ég var þarna var þetta ekki eitthvað sem ég tók einn ákvörðun um. Það er ákveðinn hópur sem ræðir svona mál með reglulegu millibili og svo koma tímapunktar þar sem þarf að taka ákvarðanir.
Varðandi þessa fjóra sem þú nefnir þá er ekkert eitt háð öðru. Í tilfelli eins leikmanns hefur hann ákveðið vægi í liðinu og því var tekin ákvörðun um að endursemja við hann. Í öðrum tilfellum, þegar ekki er samið við leikmenn, þýðir það ekki að félaginu finnist þeir ekki góðir leikmenn. Þá er það einfaldlega skref í átt að öðru, eða að leikmenn í þeirri stöðu séu tilbúnir að taka við hlutverkinu.
Þetta er eins alls staðar. Allar ákvarðanir sem ég tók voru í þágu félagsins, bæði til skemmri og lengri tíma. Enginn nær öllum þessum ákvörðunum hundrað prósent rétt. En út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir og hvernig menn telja hlutina þróast þarf að taka erfiðar ákvarðanir.
Á Íslandi er þetta mjög persónulegt, sérstaklega þegar um er að ræða leikmenn sem eru uppaldnir hjá félaginu eða hafa verið þar lengi. Það er ekkert skemmtilegt að taka þátt í slíkum ákvörðunum þegar þeir halda ekki áfram hjá félaginu,“ sagði Alfreð að lokum.
Viðtalið má hlusta í heild sinni í spilaranum hér að neðan.
Athugasemdir



