Gluggadagurinn verður eftir viku en klukkan 19:00 mánudagskvöldið 2. febrúar verður félagaskiptamarkaðnum lokað. BBC setti saman lista yfir áhugaverð skipti til eða frá ensku úrvalsdeildinni sem gætu orðið að veruleika.
Franski sóknarmaðurinn Jean-Philippe Mateta hefur tilkynnt Crystal Palace að hann vilji færa sig um set. Palace verðleggur hann á 40 milljónir punda en ítalska stórliðið Juventus og enska úrvalsdeildarfélagið Aston Villa eru talin líklegust til að næla í hann. AC Milan og Tottenham hafa einnig verið nefnd.
Úlfarnir virðast tilbúnir til að selja norska framherjann Jörgen Strand Larsen en hann hefur verið orðaður við Leeds, West Ham, Nottingham Forest og Crystal .
Sóknarmaðurinn Tammy Abraham, sem er á láni hjá Besiktas frá Roma, hefur sterklega verið orðaður við endurkomu til Aston Villa.
Elliot Anderson hjá Nottingham Forest hefur verið orðaður við Manchester City, Chelsea og Manchester United. Það er þó talið ansi ólíklegt núna að enski miðjumaðurinn færi sig um set í þessum glugga.
Portúgalski miðjumaðurinn Rúben Neves gæti snúið aftur í enska boltann. Hann er sagður vilja snúa aftur til Evrópu frá Al-Hilal í Sádi-Arabíu. Hann gæti komið með kærkomna breidd á miðsvæðið fyrir Manchester United, og þá hefur Real Madrid víst líka áhuga.
Hollenski framherjinn Joshua Zirkzee hefur ekki náð neinum hæðum síðan hann gekk í raðir Manchester United. Hann gæti snúið aftur í ítalska boltann. Roma og Napoli hafa áhuga.
Aston Villa vill bæta við sig miðjumanni og Ruben Loftus-Cheek, leikmaður AC Milan, gæti snúið til baka í enska boltann.
Bournemouth er að tryggja sér vængmanninn Rayan til að fylla skarð Antoine Semenyo sem fór til Manchester City. Rayan er 19 ára leikmaður Vasco de Gama og hefur verið líkt við Vinicius Jr í Brasilíu.
Þá færist Lucas Paqueta nær því að kveðja West Ham en hann virðist á leið heim til Brasilíu, til Flamengo þar sem aðalliðsferill hans hófst.
Athugasemdir




