Ólíklegt að Liverpool selji Robertson - City með augu á Trent Alexander-Arnold - Bobb frá City til Fulham
banner
   mán 26. janúar 2026 10:23
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Viðræður um sameiningu Leiknis og ÍR komnar vel á veg
Lengjudeildin
Mætir Breiðholt sameinað til leiks á næsta ári?
Mætir Breiðholt sameinað til leiks á næsta ári?
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Eyjólfur Héðinsson.
Eyjólfur Héðinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hefur verið gott skrið í sameiningarviðræðum milli Leiknis og ÍR í Breiðholti. Auknar líkur eru á því að liðin mæti sameinuð til leiks í fótboltanum frá og með næsta ári.

Viðræður hafa verið í gangi um að nýtt fótboltafélag myndi bera nafnið Breiðholt og taka þátt í öllum flokkum í karla- og kvennaflokki.

Meistaraflokkar karla hjá Leikni og ÍR leika báðir í Lengjudeildinni. Leiknir hefur ekki sent kvennalið til keppni í meistaraflokki síðan árið 2019, en kvennalið ÍR leikur í 2. deild.

Væri mjög til í að sjá þetta gerast
Rætt var um mögulega sameiningu Breiðholts í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 um helgina en þar var Eyjólfur Héðinsson, yfirmaður fótboltamála hjá Breiðabliki, gestur. Eyjólfur er uppalinn ÍR-ingur og hefur lengi verið á þeirri skoðun að sameina eigi fótboltann í Breiðholti.

„Mín skoðun hefur ekkert breyst. Mér finnst eina vitið að sameina knattspyrnudeildir Leiknis og ÍR. Hvernig það verður svo nákvæmlega gert er kannski annarra að ákveða en ég veit að þeir sem eru að draga vagninn núna eru með mjög góðar hugmyndir," segir Eyjólfur.

„Þetta hefur aldrei farið eins langt og núna, það er spurning hvort þetta fari alla leið. Ég væri mjög til í að sjá það gerast. Mér skilst að borgin sé mjög hlynnt þessu. Þetta hefur hingað til strandað á einhverjum tilfinningamálum eins og merki eða lit á búning. Fyrir mér skiptir það engu máli, bara um að snúa bökum saman og gera þetta almennilega."

Eyjólfur segir að hann hafi varla hitt mann sem sé mótfallinn þessum sameiningarhugmyndum og ræðir í viðtalinu meðal annars um vel heppnaða sameiningu í Kaupmannahöfn.
Útvarpsþátturinn - Arnar Gunnlaugs og Eyjó Héðins
Athugasemdir
banner