Ólíklegt að Liverpool selji Robertson - City með augu á Trent Alexander-Arnold - Bobb frá City til Fulham
   mán 26. janúar 2026 15:00
Elvar Geir Magnússon
Kvaddi í tárum - Forráðamenn Dortmund reiðir út í Chelsea
Anselmino í leik með Dortmund.
Anselmino í leik með Dortmund.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Stjórnendur þýska félagsins Borussia Dortmund eru sagðir reiðir út í Chelsea hvernig staðið var að því að enska félagið kallaði argentínska miðvörðinn Aaron Anselmino úr láni.

Upphaflega var áætlað að hinn tvítugi Anselmino yrði hjá Dortmund út tímabilið en Chelsea ákvað að kalla hann til baka til að auka breidd sína varnarlega.

Það var tilfinningarík stund í dag þegar Anselmino kvaddi liðsfélaga sína og hann táraðist, eins og sjá má í myndbandi sem Dortmund birti á X samfélagsmiðlinum.

Chelsea hafði að sjálfsögðu fullan rétt á að kalla leikmanninn til baka en þýska blaðið Bild segir að forráðamenn Dortmund séu reiður yfir því að fyrirvarinn hafi ekki verið neinn.

Chelsea lét Dortmund ekki vita af því að lánssamningnum gæti verið rift og þýska félagið hefur nú aðeins viku til stefnu til að fá inn leikmann í staðinn.

Anselmino lék tíu leiki fyrir Dortmund og var ánægja með frammistöðu hans. Þýska félagið hafði vonast eftir því að eiga möguleika á að kaupa leikmanninn alfarið, þó engin ákvæði hafi verið um það í lánssamningnum.


Athugasemdir
banner
banner