Mainoo að fá nýjan samning - Tekur Guardiola við enska landsliðinu - Eriksen fer til Ajax
banner
   mán 29. maí 2023 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ég er alltaf stolt af Mundu"
Breiðablik fagnar marki um liðna helgi.
Breiðablik fagnar marki um liðna helgi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, leikmaður Breiðabliks.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, leikmaður Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, segir að það sé mikilvægt að halda umræðunni um jafnrétti í fótboltanum.

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, liðsfélagi Ástu, var í áhugaverðu viðtali hér á Fótbolta.net á dögunum þar sem hún ræddi einmitt um það, um launamismuninn sem er í íslenska boltanum og muninn á viðhorfum í garð karla og kvenna. „Velgengni karlmanna er meira virði en velgengni kvenna," sagði Áslaug Munda.

Ásta telur mikilvægt að taka umræðuna og ræða þessi mál, en leikmenn í Bestu deild kvenna létu til að mynda í sér heyra fyrir tímabil þar sem vinnubrögð ÍTF í undirbúningi fyrir deildina voru harðlega gagnrýnd.

„Eins og Munda sagði þá er mikilvægt að minna á þetta. Þessi umræða fer oft hátt - allir eru sammála og ætla að ræða þetta - en svo deyr hún og það gerist ekki neitt," sagði Ásta eftir 7-0 sigur Breiðabliks á Fram í Mjólkurbikarnum síðasta laugardag. „Mér finnst ekkert að því að við höldum áfram að minna á hluti sem við erum ekki ánægðar með. Ég er mjög ánægð með Mundu að hafa stimplað á þessu í viðtalinu. Þetta er rétt og fínt að tala um þetta. Það er fullt sem má fara betur."

„Umgjörðin hér hjá Breiðabliki er mjög góð en að skapa umgjörð og búa til áhuga, það þarf vinnu til að gera það. Ég held að félögin þurfi stundum að stíga upp og líta inn á við. Það er margt í þessu sem má fara betur en það sem er kannski auðvelt að laga er umgjörð hjá öllum liðum," segir Ásta.

Það er líka mikilvæg umræða
Áslaug Munda sýndi líka mikið hugrekki með því að opna sig í viðtalinu og tala um andlega heilsu sína.

„Það er líka mikilvæg umræða. Utanaðkomandi horfa oft á íþróttafólk og heldur að það sé búið til úr stáli, næsti leikur alltaf og svoleiðis. En það eru allir að glíma við eitthvað og það er mjög gott að tala um það og opna sig, hvort sem það er við liðsfélaga eða út á við eins og Munda gerði - sem var mjög flott hjá henni. Maður hefur séð umræðuna sem hefur skapast í kringum þetta viðtal hjá henni og vonandi verður það áminning fyrir fleiri sem eru að ströggla að tala um það, hvort sem það er við sérfræðinga, liðsfélaga, þjálfara eða hvað sem er," sagði Ásta og bætti við:

„Ég er alltaf stolt af Mundu."


Ásta Eir sátt: Held að ég skori á svona þriggja ára fresti
Tiltalið: Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir
Athugasemdir
banner
banner
banner