Það vakti athygli á laugardag þegar Adam Ægir Pálsson var ekki í leikmannahópi Vals. Adam æfði með 2. flokki sama dag og horfði svo á leikinn gegn FH úr stúkunni. Arnar Grétarsson sagði að hann hefði einfaldlega ekki valið Adam í hópinn.
„Ég er ekki að fara út í það. Þjálfarar velja alltaf það lið sem þeir hafa trú á. Í dag er það þannig að hann er utan hóps og það er ekkert meira um það að segja," sagði Arnar í viðtali við Fótbolta.net eftir leikinn.
„Ég er ekki að fara út í það. Þjálfarar velja alltaf það lið sem þeir hafa trú á. Í dag er það þannig að hann er utan hóps og það er ekkert meira um það að segja," sagði Arnar í viðtali við Fótbolta.net eftir leikinn.
Í kjölfarið var fjallað um Adam í Dr. Football og þar nefndi Hjörvar Hafliðason að hann hefði heyrt að einhver misskilningur hefði komið upp í kjölfarið á því að Adam hefði farið á útihátíðina Kótelettuna á Selfossi.
„Ég heyri þetta frá fólki innan Vals. Þjálfarinn heyrði af þessu (að Adam hefði farið á Kótelettuna) og upp úr verður einhver misskilningur. Það voru fleiri leikmenn í liðinu sem voru þarna, þetta var ekki neitt. Það kom upp októberfest mál í Breiðabliki ári áður en Arnar fór þaðan. Þá fór Damir í agabann út af „engu". Adam einhvern veginn sat í súpunni eftir þetta, spilatíminn fer minnkandi og svo er hann farinn á bekkinn, fær alltaf skrítnari og skrítnari meðferð," sagði Hjörvar.
Adam er næst markahæsti leikmaður Vals með átta mörk skoruð og fimm stoðsendingar í 20 leikjum (16 í byrjunarliði). Hann var keyptur frá Víkingi í vetur.
Hjörvar kom inn á áhuga Strömsgodset á leikmanninum og var nánar rætt um það í Innkastinu.
„Strömsgodset í Noregi bauð í Adam og virkjar ákvæði í samning hans og tilboðið er samþykkt. Svo hættir Strömsgodset við að kaupa Adam og kaupir annan leikmann," sagði Sæbjörn Steinke í Innkastinu.
Adam á að hafa náð munnlegu samkomulagi við Strömsgodset og beðið eftir því að félagið myndi bóka hann til Noregs í læknisskoðun og undirritun. Þjálfari liðsins hafi hætt við á síðustu stundu og keypti Eirik Ulland Andersen í staðinn frá Molde.
„Það gæti hafa farið illa í sjálfstraustið á Adam. Hann er leikmaður sem þrífst á jákvæðri umfjöllun og sjálfstrausti. Hann gæti í kjölfarið hafa spilað eða æft sig út úr liðinu," velti Sæbjörn fyrir sér.
„Hann er allavega töluvert betri leikmaður en Guðmundur Andri (Tryggvason) í dag," sagði Tómas Þór Þórðarson.
„Og hann ætti klárlega í það minnsta að vera á bekknum í stað Lúkasar Loga Heimissonar, ætti sennilega að vera í byrjunarliðinu með Tryggva Hrafn Haraldsson á hinum kantinum," sagði Sæbjörn.
Athugasemdir