U-17 ára landslið karla mætir Rússum klukkan 15:00 í dag og með hagstæðum úrslitum í leikjum dagsins í milliriðlinum í Portúgal gæti liðið komist áfram í úrslitakeppni EM. Við fengum sendan pistil frá stuðningsmönnum sem fylgjast með liðinu í Portúgal og birtist hann hér að neðan.
Íslenska landsliðið U-17 ára hefur leikið í milliriðlum í Portúgal síðustu vikuna og er skemmst frá því að segja að vel hefur gengið hjá liðinu eftir 2-2 jafntefli við Norður Íra eftir að hafa leitt 2-0 í hálfleik og mjög svo glæsilegt jafntefli gegn Portúgölum 0-0 á miðvikudag.
Þessi úrslit þýða að staðan í riðlinum er mjög jöfn og geta Rússar, Portúgalir og Íslendingar allir unnið riðilinn. Í dag laugardag leika Íslendingar gegn Rússum og Portúgalir við Norður Íra og verða Rússar að sigra Íslendinga til að ná sigri í riðlinum en aðeins eitt lið fer áfram í úrslitakeppnina í Belgíu í maí næstkomandi. Portúgalir verða að að sigra Norður Íra 3-0 til þess að eiga möguleika á að sigra í riðlinum.
Okkar menn sem hafa leikið mjög vel í keppninni þurfa að sigra Rússa, hugsanlega gæti dugað 2-0 sigur ef Portúgalir vinna ekki með meira en tveggja marka mun gegn Norður Írum.
Þetta gerir riðilinn á loka keppnisdaginn mjög spennandi og eru Íslendingar í fantaformi og stemmingin í hópnum mjög góð en þeir sem þetta skrifa fylgdust með æfingunni í gær föstudag. Portúgalskir fjölmiðlar gera heldur ráð fyrir einvígi milli risanna heimamannanna og Rússa en greina þó frá því að Íslendingar geti haft mikil áhrif á niðurstöðuna í riðlinu
Það er því mikil spenna hér í Portúgal og verður fróðlegt að fylgjast með leiknum í dag dag og það verður að teljast harla óvænt hvað íslenska liðið hefur haft mikil áhrif á gang mála í keppninni.
Athugasemdir