Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, var ómyrkur í máli eftir að liðið steinlá gegn Fylki á Kóapvogsvellinum í kvöld 4-1.
Lestu um leikinn: Breiðablik 1 - 4 Fylkir
„Ég er mjög svekktur með frammistöðuna, spilamennskuna, hugarfarið. Menn lögðu engan veginn nóg í leikinn til að fá eitthvað út úr honum og úrslitin eru afleiðing af því," segir Ólafur.
„Markmanninum var vorkunn að þurfa að standa fyrir aftan hriplekt lið. Það var veisla fyrir Fylki að spila á móti okkur í dag. Það er mjög alvarlegt hvernig við nálguðumst og spiluðum þennan leik í dag. Þetta er ekki okkur sæmandi."
„Við gerðum mistök og brugðumst mjög illa við þeim. Félaginn er ekki tilbúinn að bakka þau upp og menn ekki tilbúnir að rífa sig upp eftir að hafa gert mistök. Hausinn fer ofan í sandinn og er þar. Menn hættu að taka ábyrgð á mistökum og liðið molnar. Í lokin var þetta orðið þannig að það var bara hörmung að sjá þetta."
„Þetta er slakasta heildarframmistaða liðsins í langan tíma. Ég þarf að fara langt aftur til að finna svona."
Viðtalið má sjá í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir
























