Man Utd hefur áhuga á Valverde - Guehi gæti farið til Tottenham - Frank hefur líka áhuga á Collins
   mið 01. október 2025 18:39
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Newcastle gerði sér góða ferð til Belgíu - Qarabag óvænt með fullt hús stiga
Anthony Gordon skoraði tvö fyrir Newcastle
Anthony Gordon skoraði tvö fyrir Newcastle
Mynd: EPA
Nick Woltemade heldur áfram að heilla
Nick Woltemade heldur áfram að heilla
Mynd: EPA
Qarabag er með fullt hús stiga
Qarabag er með fullt hús stiga
Mynd: EPA
Newcastle United náði í sinn fyrsta sigur í deildarkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld er liðið vann Union St. Gilloise örugglega, 4-0, á Lotto Park í Brussel í Belgíu í kvöld. Qarabag frá Aserbaídsjan vann þá annan leik sinn er liðið lagði FCK, 2-0, á Tofiq Bähramov-vellinum í Baku.

Gestirnir í Newcastle komust yfir eftir rúman stundarfjórðung er Anthony Elanga kom með fyrirgjöf inn á teiginn sem var hreinsuð út á Sandro Tonali. Hann tók skotið sem fór af þýska sóknarmanninum og í netið.

Undir lok hálfleiksins fengu Newcastle-menn vítaspyrnu eftir laglegan sprett Elanga. Hann lék sér með boltann hægra megin, komst framhjá einum varnarmanni áður en hann var tæklaður í grasið og vítaspyrna dæmd.

Anthony Gordon skoraði úr vítinu og sá til þess að Newcastle færi með tveggja marka forystu inn í hálfleikinn.

Gordon bætti við öðru marki sínu þegar tæpur hálftími var til leiksloka. Hann átti fyrirgjöf inn á teiginn sem varnarmaður Union handlék og önnur vítaspyrna dæmd. Aftur var Gordon sendur á punktinn og aftur skoraði hann.

Fyrsti leikmaður Newcastle til að skora í fyrstu tveimur leikjunum í stórkeppni í Evrópu síðan Patrick Kluivert gerði það í UEFA-bikarnum tímabilið 2004-2005.

Stuttu fyrir leikslok batt Harvey Barnes endahnút á frábæra sókn. Gordon kom boltanum fram á William Osula sem gerði vel að halda varnarmanninum frá sér áður en hann stakk boltanum inn fyrir á Barnes sem setti boltann í nærhornið.

Frábær 4-0 sigur Newcastle sem er komið með þrjú stig eins og Union eftir tvær umferðir.

Qarabag heldur áfram að gera magnaða hluti í deildarkeppninni en liðið lagði FCK að velli, 2-0.

Abdellah Zoubir skoraði fyrra mark leiksins á 28. mínútu er hann hirti frákast eftir að skot Pedro Bicalho hafnaði í stönginni.

Á 83. mínútu bætti Emmanuel Addai við öðru marki eftir frábæran einleik fyrir utan teig FCK. Hann hafði komið inn á sem varamaður um það bil þrettán mínútum áður.

Qarabag er með fullt hús stiga eftir tvær umferðir en FCK með eitt stig.

Rúnar Alex Rúnarsson var á varamannabekk FCK en kom ekkert við sögu.

Qarabag 2 - 0 FC Kobenhavn
1-0 Abdellah Zoubir ('28 )
2-0 Emmanuel Addai ('83 )

St. Gilloise 0 - 4 Newcastle
0-1 Nick Woltemade ('17 )
0-2 Anthony Gordon ('43 , víti)
0-3 Anthony Gordon ('64 , víti)
0-4 Harvey Barnes ('80 )
Athugasemdir