Manchester liðin og fleiri vilja Semenyo - Arsenal í viðræðum við Saka - Barcelona bíður með ákvörðun um Rashford
   þri 30. september 2025 13:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Davíð Smári hissa á spurningu fréttamanns
Davíð Smára var í gær sagt upp sem þjálfari Vestra eftir rétt tæplega þrjú árangursrík ár í starfi.
Davíð Smára var í gær sagt upp sem þjálfari Vestra eftir rétt tæplega þrjú árangursrík ár í starfi.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Bikarmeistari með Vestra.
Bikarmeistari með Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
'Ég held að ég hafi náð öllum þeim markmiðum sem Sammi setti mér'
'Ég held að ég hafi náð öllum þeim markmiðum sem Sammi setti mér'
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Davíð náði því frábæra afreki að gera lið Vestra að bikarmeisturum.
Davíð náði því frábæra afreki að gera lið Vestra að bikarmeisturum.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Fótbolti.net ræddi í dag við Davíð Smára Lamude sem látinn var fara frá Vestra í gær. Í morgun var birt frétt upp úr hlaðvarpsþættinum Innkastið hér á Fótbolti.net þar sem því var velt upp hvort að Davíð hefði misst klefann, leikmannahópinn.

Undirritaður spurði Davíð hvort honum hafi fundist hann ennþá hafa haft leikmennina með sér í liði.

„Já, ertu að grínast?" spurði Davíð til baka og það heyrðist á honum að hann var hissa á spurningunni, og hélt svo áfram að svara. „Algjörlega 100%. Ég held að þetta hafi verið mikið áfall fyrir leikmannahópinn ef ég á að vera alveg hreinskilinn við þig. Það rignir yfir mig skilaboð, þakklæti og annað frá leikmannahópnum. Ég held að leikmannahópurinn hafi verið gríðarlega hissa á þessu. Ég held ekki að það verið komin uppgjöf í hópinn, þó að auðvitað hafi úrslit síðustu leikja verið óboðleg, eitthvað sem við erum ekki þekktir fyrir. En svona er þetta bara í fótboltanum," segir Davíð Smári.

Fréttamaður útskýrði að spurningin hefði sprottið út frá umræðunni í þættinum.

„Ég þori að fullyrða miðað við símtölin og skilaboðin frá mjög mörgum í hópnum að það er ekki staðan. Ég á mjög bágt með að trúa að svo hafi verið."

Var orðið ljóst að Davíð myndi ekki endursemja
Þú ert væntanlega vonsvikinn að fá ekki að klára þetta tímabil, en eru einhver vonbrigði að fá ekki möguleikann á því að stýra Vestra í Evrópuleikjum?

„Nei. Ég held að það sé líka mögulega þáttur í ákvörðuninni, það var löngu orðið ljóst að ég yrði ekki áfram."

„Ég er búinn að búa í þrjú ár frá minni fjölskyldu sem er búsett í Reykjavík. Það er stór ástæða fyrir því að ég ætlaði ekki að vera áfram."


Gengið illa eftir bikarúrslitin
Gengið var ekki gott eftir bikarúrslitaleikinn, var of mikil ánægja með þann titil þannig að fókusinn fór af verkefninu?

„Ég held að fókusinn hjá mér og starfsteyminu hafi ekki farið, ég var alltaf meðvitaður um að miðað við hvernig leikirnir okkar spiluðust að við yrðum að halda mjög fast utan um hlutina. Hópurinn er aðeins minni en hefði verið kjörið í auknu álagi út af bikarleikjum og ferðalögum."

Vill þjálfa áfram
En hvað tekur við hjá Davíð Smára, er hann búinn að fá einhver símtöl varðandi annað starf?

„Það hefur verið eitthvað svoleiðis í gangi undanfarið, en eins og ég sagði við stjórn Vestra og þá aðila sem hafa verið að hlera, þá var ég algjörlega fókuseraður á það að halda þessu liði uppi. Ég hef ekki svarað einu símtali sem hafa verið hringd. Það eru einhver nöfn að hringja núna sem ég held að séu tengd einhverjum félögum, en ég ætla bara að fá að anda og vera aðeins í faðmi fjölskyldunnar. Ég ætla líka að leyfa mér að vera stuðningsmaður Vestra, horfa á næsta leik og vonast til þess að þeir klári þetta þar."

Viltu vera þjálfari á næsta tímabili?

„Ég vil vera þjálfari í liði sem er með ákveðið verkefni í gangi. Það sem heillaði mig við Samma (formann Vestra) þegar ég kom vestur er að á fyrsta fundi sagði hann við mig að ég væri að fara koma liðinu í Bestu deildina. Það var alvöru verkefni og þegar ég skrifaði undir nýjan samning eftir að hafa komið liðinu upp, þá sagði Sammi við mig að ég væri að fara koma liðinu í Evrópu. Ég held að ég hafi náð öllum þeim markmiðum sem Sammi setti mér. Ég get ekki annað en gengið stoltur og ánægður frá borði, ánægður með tímann minn í Vestra. Tíminn var hrikalega góður. Ef okkur hefði verið boðið það að verða bikarmeistarar og í þessari stöðu þegar þrír leikir væru eftir, þá held ég að við hefðum allir tekið því," segir Davíð Smári.
Athugasemdir