„Þetta er draumur þjálfarans, að halda hreinu og vinna 1-0. Mér finnst það bara geggjað,“ sagði Donni, þjálfari Þórs/KA eftir 1-0 sigur á Breiðabliki í Pepsi deild kvenna í dag.
Lestu um leikinn: Þór/KA 1 - 0 Breiðablik
„Stelpurnar enn og aftur, eins og á móti Val, lögðu gríðarlega mikið á sig og uppskáru eftir því. Þannig er bara fótboltinn, eins og ég sagði fyrir síðasta leik líka, að ef þær eru tilbúnar að leggja mikla vinnu á sig, þá geta þær náð eins langt og þær vilja og þá getum við unnið alla leiki.“
Þór/KA lögðu Val í fyrstu umferð deildarinnar á fimmtudaginn, en bæði Val og Breiðabliki var spáð ofar en Akureyringunum. Báðir sigrarnir unnust að stóru leyti á gríðarlegri baráttu og vilja. Donni segir að liðið leggi klárlega upp með það.
„Engin spurning. Þær fóru virkilega vel eftir planinu í dag og uppskriftin var algjörlega fullkomin, sem að þær svo framkvæmdu. Ég er virkilega stoltur af stelpunum, hvernig þær eru að framkvæma hlutina sem þær eru beðnar um, því að það fylgist ekki alltaf að, hvernig þjálfarinn leggur upp leikina og hvernig liðið svo fer eftir því.“
Þór/KA hafa spilað 3-5-2 leikkerfið í upphafi tímabilsins, en það hefur ekki verið notað síðustu ár hjá liðinu.
„Þetta hentar þessu liði gríðarlega vel. Við erum með þannig mannskap uppsettan að þetta hentar bara gríðarlega vel. Svo aftur á móti er þetta líka bara nýtt og það er náttúrlega nýtt fyrir hin liðin líka, þannig við kannski erum að reyna að vera pínu klók.“
Nánar er rætt við Donna í spilaranum hér að neðan.
Athugasemdir
























