Þá er komið að því að greina frá því hvernig spáin fyrir efri hlutann í 3. deild lítur út. Keppni hefst í deildinni í kvöld með leik Hvíta riddarans og KV á Malbikstöðinni að Varmá.
Við fengum alla þjálfara í deildinni til að skila inn spá stuttu fyrir mót. Þeir voru beðnir að raða liðunum niður 1-11 í spá og slepptu sínu liði. Miðað við spá þjálfara þá verður efri hluti deildarinnar gríðarlega jafn og spennandi og má búast við harðri baráttu um efstu tvö sætin.
Við fengum alla þjálfara í deildinni til að skila inn spá stuttu fyrir mót. Þeir voru beðnir að raða liðunum niður 1-11 í spá og slepptu sínu liði. Miðað við spá þjálfara þá verður efri hluti deildarinnar gríðarlega jafn og spennandi og má búast við harðri baráttu um efstu tvö sætin.
6. Árbær (80 stig)
Lokastaða í fyrra: 3. sæti í 3. deild
Árbær hefur síðustu tvö sumur verið í baráttu um það að komast upp úr 3. deildinni. Þeim var spáð fjórða sæti í fyrra og lentu þeir í þriðja sæti. Þeir voru aðeins markatölunni frá því að komast upp en Víðir úr Garði var með mun betri markatölu. Baldvin Már Borgarsson tók við Árbæ fyrir síðasta tímabil og gerði flotta hluti á sínu fyrsta tímabili með liðið. Hann hefur reynslu af því að koma liði upp úr þessari deild en hann var áður í þjálfarateymi Ægis. Það er spurning hvort félagið þurfi ekki að fara að breyta nafni sínu en annað sumarið í röð spila þeir heimaleiki sína á svæði Leiknis í Breiðholtinu. Þetta er ungt félag en það er mikill metnaður þarna og uppgangurinn síðustu ár er skýrt merki um það.
Lykilmenn: Daníel Gylfason og Agnar Guðjónsson.
Gaman að fylgjast með: Egill Helgi Guðjónsson.
Þjálfarinn segir - Baldvin Már Borgarsson
„Spáin rímar alls ekki við okkar markmið en er kannski eðlileg í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið á hópnum og úrslita í nokkrum leikjum í vetur. Við hins vegar mætum bara með kassann út og geðveikina í botni inn í mótið og afsönnum það að við endum um miðja deild. Ég skora hér með opinberlega á nokkra leikmenn í mínu liði að taka þessa spá til sín og mæta gíraðir til leiks."
5. Magni (91 stig)
Lokastaða í fyrra: 5. sæti í 3. deild
Manni líður eins og það sé ekki brjálæðislega langt síðan magnaðir Magnamenn voru að bjarga ótrúlegan hátt í Lengjudeildinni og var stemningin á Grenivík þá gríðarleg á einum flottasta fótboltavelli landsins. Núna eru Grenvíkingar á leið inn í sitt þriðja tímabil í röð í 3. deildinni. Tímabilið í fyrra var aðeins betra en tímabilið á undan, þeir tóku ágætis skref fram á við. Þeir voru þó ekki í mikilli baráttu um það að komast upp og voru bara í frekar miklu miðjumoði. Í Magnaliðinu eru flestir uppaldir annað hvort uppaldir í Þór eða KA, en nýr þjálfari liðsins er Húsvíkingurinn Guðmundur Óli Steingrímsson. Magnamenn ætla sér að gera betur en spáin segir til um.
Lykilmenn: Tómas Örn Arnarson og Steinar Logi Þórðarson.
Gaman að fylgjast með: Viðar Már Hilmarsson.
Þjálfarinn segir - Guðmundur Óli Steingrímsson
„Ég hef svo sem ekki mikið um þessa spá að segja. Eina sem hún segir mér er hvernig aðrir þjálfarar sjá Magna liðið og ef þeir halda að við séum fimmta besta liðið þá er það bara flott. Þeir vita líklega jafn lítið um Magna liðið og við um þeirra lið."
„Okkar markmið er að sjálfssögðu að vinna þessa deild. Hópurinn er 100% nægilega góður til þess en fótbolti er aðallega spilaður með hausnum og ef ég næ að hafa þessa hausa í lagi og við mætum klárir í alla leiki þá er ég bara bjartsýnn."
4. Reynir S. (94 stig)
Lokastaða í fyrra: 12. sæti í 2. deild
Reynir úr Sandgerði þurfti að bíta í það súra epli í fyrra að falla úr 2. deild. Þeir voru einfaldlega ekki nægilega góðir eftir að hafa komið upp í deildina árið áður. Þegar Reynir vann 3. deildina 2023 þá var Kristófer Páll Viðarsson magnaður þar sem hann skoraði 17 mörk í 19 leikjum, en hann yfirgaf félagið fyrir þetta tímabil og fór í Hött/Hugin. Það er þó enn ákveðinn kjarni til staðar sem hjálpaði liðinu að vinna deildina og hann þarf að hjálpa Reynismönnum að finna sama takt og áður svo þeir fari aðeins ofar en þessi spá segir til um.
Lykilmenn: Jordan Smylie og Sindri Lars Ómarsson.
Gaman að fylgjast með: Leonard Adam Zmarzlik.
Þjálfarinn segir - Ray Anthony Jónsson
„Það er bara jákvætt að liðinu sé spáð um miðja deild. Aftur á máti er þetta bara spá þjálfara og liða þannig að þetta er ekki eitthvað sem við munum velta okkur mikið upp úr því það er vinnan fyrir hvern einasta leik sem skiptir máli. Markmið liðsins er að vera í efri hlutanum, svo sjáum við bara hvernig hlutirnir þróast."
3. Tindastóll (95 stig)
Lokastaða í fyrra: 1. sæti í 4. deild
Stólunum er spáð býsna góðu gengi eftir að hafa komist upp úr 4. deildinni í fyrra. Það er kominn tími á það að rífa fótboltann á Sauðárkróki aftur upp. Stelpurnar hafa verið að gera frábærlega síðustu ár og eru í Bestu deild kvenna en strákarnir hafa verið í lægð síðustu ár. Karlalið Tindastóls féll úr 3. deild árið 2021 og er að koma upp núna í fyrsta sinn síðan þá. Sauðárkrókur hefur verið mikill körfuboltabær síðustu árin og það er gríðarlega stemning í honum núna þar sem liðið er líklegt til að vinna Íslandsmeistaratitilinn en það gæti myndast mikil stemning í fótboltanum í sumar ef stelpurnar halda áfram að standa sig vel og ef strákarnir fylgja eftir flottu sumri í fyrra með því að vera í toppbaráttu í 3. deild.
Lykilmenn: Nikola Stoisavljevic og Benjamín Jóhannes Gunnlaugarson.
Gaman að fylgjast með: Ivan Tsonev.
Þjálfarinn segir - Konráð Freyr Sigurðsson
„Sem nýliðar í þessari deild er það bara mikið hrós, við komum í þessa deild algjörlega pressulausir nema pressan sem við setjum á sjálfa okkur og ætlum að njóta þess að spila góðan og árangursríkan fótbolta."
„Markmiðin eru innan hópsins og mun það vera þannig. Við förum í alla leiki til að vinna og það mun ekkert breytast, ef svo gerist þá gerast góðir hlutir, segir sig sjálft."
2. KV (96 stig)
Lokastaða í fyrra: 8. sæti í 3. deild
Það hefur verið skemmtileg stemning í kringum KV í vetur og sérstaklega að undanförnu þar sem nokkrir stórir leikmenn hafa dottið þarna inn. Aron Bjarki Jósepsson, Pálmi Rafn Pálmason og Theódór Elmar Bjarnason, gamlar KR hetjur, voru kynntar til leiks með glæsilegu myndbandi en því miður er geitin sjálf, Óskar Örn Hauksson, ekki enn dottinn inn. Það hafa verið viðræður um það, en ekki víst að það gerist. Vonandi því það væri gaman að sjá hann í þessari deild. KV var í vandræðum í fyrra eftir fall úr 2. deild en þeim er spáð betra gengi í sumar með stjörnur innanborðs.
Lykilmenn: Pálmi Rafn Pálmason og Theódór Elmar Bjarnason.
Gaman að fylgjast með: Patrik Thor Pétursson.
Þjálfarinn segir - Orri Fannar Þórisson
„Spáin er fín lesning á kaffistofunni og við tökum henni sem hrósi, en við fáum engin stig í pokann fyrir að vera númer 2 í maí."
„Við erum með frábæra blöndu af gömlum refum sem kunna alla króka leiksins og ungum strákum sem koma með endalausan kraft. Hlutverk okkar þjálfaranna er einfaldlega að hrista þetta rétt saman og setja hita á helluna, þá ætti rétta bragðið að koma sjálfkrafa."
„Markmiðið er einfalt, að vera betri í lok hvers dags en við vorum í gær, njóta þess að spila fótbolta og láta leikgleðina skila sér í stigum. Ef við gerum það mun taflan vera góð við okkur í lok tímabils."
„Þannig að pressan? Hún má alveg sitja í stúkunni og fá sér pylsu, við mætum bara á völlinn, vinnum verkið okkar og höldum áfram að skemmta okkur."
1. Augnablik (111 stig)
Augnablik endaði á því að vera frekar yfirburðar í þessari spá og er þeim spáð efsta sæti í deildinni. Það er mikil trú á Kópavogsfélaginu og spurning hvort þeir nái að standast pressuna. Augnabliki var spáð öðru sæti í fyrra en þeir enduðu að lokum í fjórða. En það er alveg ljóst að það er mjög skemmtilegt verkefni sem er þarna í gangi sem snýr að því að leikmenn sem komast ekki að í Breiðabliki, þeir fái annað tækifæri til að koma saman og spila fótbolta á góðu stigi og með góðum hópi. Leikmannahópur Augnabliks er gríðarlega samheldinn en gildi félagsins eru gleði, virðing og þakklæti. Margir í liðinu hafa spilað lengi saman og þekkja vel inn á hvorn annan.
Lokastaða í fyrra: 4. sæti í 3. deild
Lykilmenn: Arnar Laufdal Arnarsson og Eysteinn Þorri Björgvinsson.
Gaman að fylgjast með. Viktor Andri Pétursson.
Þjálfarinn segir - Hrannar Bogi Jónsson
„Flott að okkur sé spáð 1. sætinu, það setur ákveðna pressu á okkur sem við viljum læra að lifa með en ekki alltaf forðast eða lítillækka. Markmiðið verður afleiðing af því að gefa 100% effort í hvert einasta verkefni og taka réttar ákvarðanir sem hópur."
Athugasemdir