Newcastle vill læra af síðasta sumri - Arsenal í baráttu við PSG um leikmann - Man Utd búið að krækja í ungan leikmann
   fös 02. maí 2025 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Vitum að þetta verður ekkert 'walk in the park' í sumar"
Lengjudeildin
Árni tók við Fylki í vetur.
Árni tók við Fylki í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Fylkismenn fagna marki.
Fylkismenn fagna marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Er spenntur fyrir komandi tímum í Árbænum.
Er spenntur fyrir komandi tímum í Árbænum.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
„Nei í rauninni kemur spáin ekki á óvart," segir Árni Freyr Guðnason, þjálfari Fylkis, í samtali við Fótbolta.net. Fylkismönnum er spáð efsta sæti Lengjudeildarinnar og ef sú spá rætist þá fer liðið beint aftur upp í Bestu deildina.

„Liðið féll úr Bestu deildinni í fyrra og okkur hefur gengið vel í vetur þannig það kemur okkur ekkert á óvart. En að því sögðu þá vitum við að þetta verður ekkert „walk in the park“ í sumar og við þurfum heldur betur að hafa fyrir hlutunum."

Tekið vel á móti mér
Árni tók við Fylki í vetur eftir að hafa gert frábæra hluti með ÍR síðustu árin.

Hvernig hefur verið að koma inn í þetta í Árbænum?

„Það hefur verið mjög gott. Það var vel tekið á móti mér og stjórnin og meistaraflokksráðið vinnur náið með okkur og eru öll tilbúin að leggja mikla vinnu í að gera góðan klúbb enn betri. Við héldum tveimur aðilum úr teyminu sem var í fyrra sem mér fannst mikilvægt og svo hefur Kristó aðstoðarþjálfari komið mjög vel inn í þetta með mér. Þannig teymið er gott og nú þarf bara að fara að byrja þetta mót!" segir Árni.

Það hefur gengið vel hjá Fylki í vetur og fór liðið meðal annars í úrslitaleik Lengjubikarsins þar sem dramatískt tap var niðurstaðan gegn Val.

„Það hefur gengið vel. Þessi æfingamót segja vissulega ekki alla söguna en við stóðum okkur vel í Reykjavíkurmótinu og enn betur í Lengjubikarnum. Smá svekktur að hafa ekki klárað þetta en svona er boltinn."

Mjög sáttur með hópinn
Það hafa ekki orðið miklar breytingar á leikmannahópnum í vetur og Árni er sáttur með stöðuna á hópnum.

„Já ég er mjög sáttur með leikmannahópinn. Litlar breytingar frá því í fyrra. Við töldum að við þyrftum að bæta aðeins við hópinn þannig við sóttum Eyþór, Bjarka og Pablo. Þeir hafa allir komið vel inn í þetta hjá okkur og heilt yfir er ég sáttur með hópinn," segir Árni.

Fylkir spilaði við Kára í Mjólkurbikarnum á dögunum og tapaði þar óvænt í leik þar sem Fylkismenn fengu þrjú rauð spjöld.

„Hann er búinn og farinn þannig við lokuðum honum og höldum áfram. Það er sjarmi yfir bikarnum og hefði verið gaman að komast lengra en við breytum því ekki úr þessu. Það er hægt að læra margt af öllum leikjum sem þú spilar þannig það eru ýmsir hlutir sem við tökum úr honum," segir Árni.

Verði svipað og í fyrra
Deildin í fyrra var gríðarlega spennandi og Árni býst ekki við öðru í sumar.

„Ég held að þetta verði svipað og í fyrra. Mörg lið sem eru sterk og berjast um sætin í Bestu deildinni. Þetta verður hörkumót og mikilvægt að vera klárir þegar deildin hefst."

„Markmiðið okkar er að koma Fylki í Bestu deildina þar sem við viljum vera. Við gerum okkur samt fulla grein fyrir því að það verður ekki einfalt og við þurfum að eiga góða leiki og leggja mikla vinnu í það verkefni," segir Árni og bætti við að lokum:

„Hvetjum allt Fylkisfólk að mæta á völlinn í sumar og styðja okkur áfram. Einnig hvet ég alla unnendur fótbolta að fylgjast með Lengjudeildinni í sumar, fullt af ungum og spennandi leikmönnum sem og gömlum refum sem lífga upp á fóboltasumarið!"
Athugasemdir
banner
banner