fös 02.maí 2025 18:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|

Spá þjálfara og fyrirliða fyrir Lengjudeild kvenna: 2. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeild kvenna í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð í deildinni. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-9 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í öðru sæti er ÍA.
Bryndís Rún, fyrirliði, verður ekki með ÍA í sumar þar sem hún er ólétt.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1.
2. ÍA, 138 stig
3. ÍBV, 108 stig
4. Grótta, 107 stig
5. Fylkir, 95 stig
6. HK, 84 stig
7. Grindavík/Njarðvík, 66 stig
8. KR, 62 stig
9. Haukar, 61 stig
10. Afturelding, 26 stig
2. ÍA
Í öðru sæti í spá þjálfara og fyrirliða fyrir mót eru Skagakonur sem komu upp sem nýliðar í Lengjudeildina í fyrra. Þær áttu flott mót og enduðu að lokum í fimmta sæti deildarinnar og voru nær efstu tveimur sætunum heldur en falli. Þær gerðu miklu betur en spáin sagði til um en þeim var spáð níunda sæti fyrir mótið. Í vetur hefur að miklu leyti gengið mjög vel hjá ÍA en þær fóru með sigur af hólmi í B-deild Lengjubikarsins þar sem þær unnu alla leiki sína. Það er rík hefð fyrir fótbolta á Skaganum og núna er spurning hvort félagið eignist aftur kvennalið í efstu deild. Ef spáin rætist, þá mun það gerast í ár. Árið 2018 var ÍA ekkert sérlega langt frá því að komast upp í Bestu deildina en liðið endaði þá í þriðja sæti í Lengjudeildinni með ansi skemmtilegt lið. Árin eftir voru erfið og var liðið nálægt falli bæði 2019 og 2020, og svo árið 2021 féll liðið loksins. Það tók tíma að byggja Skagaliðið aftur upp eftir þau vonbrigði, en núna eru þær á góðum stað.
Þjálfarinn: Skarphéðinn Magnússon tók við kvennaliði ÍA fyrir síðasta tímabil og gerði bara býsna vel á sínu fyrsta tímabili með liðið. Skarphéðinn er 36 ára gamall og er fyrrum markvörður ÍA. Hans síðustu leikir voru með ÍA í Lengjubikarnum árið 2018. Skarphéðinn hafði þjálfað hjá ÍA í mörg áður en hann tók við kvennaliði félagsins en hann er reynslumikill og vel menntaður þjálfari. Starfið sem hann er í núna er hans annað aðalþjálfarastarf í meistaraflokki en hann stýrði Kára, venslafélagi ÍA, fyrir nokkrum árum síðan.
Stóra spurningin: Taka þær titilinn með sér?
ÍA spilaði stórkostlega í Lengjubikarnum í vetur og vann þar alla sína leiki. Sjö leikir sem unnust allir. Nú er spurningin hvort þær nái að taka þennan titil og þennan flotta árangur með sér inn í mótið sem fer senn að hefjast. Gefur þessi flotti árangur góð fyrirheit inn í mótið? Þessi árangur er líklega stór ástæða fyrir því að þjálfarar og fyrirliðar hafa svona mikla trú á þeim og núna verða þær að standa undir því.
Lykilmenn: Erla Karitas Jóhannesdóttir og Erna Björt Elíasdóttir
Það hefur myndast góður íslenskur kjarni í hópnum og fara þar Erla Karitas og Erna Björt fremstar í flokki. Þær eru virkilega öflugir leikmenn og hafa núna sýnt það með Skagaliðinu í dágóðan tíma. Erla Karitas var markahæsti leikmaður ÍA á síðasta tímabili og hún hefur verið í frábærum gír á undirbúningstímabilinu. Hún skoraði tíu mörk í sjö leikjum í Lengjubikarnum í vetur og gerði hún þar tvennu í fjórum leikjum. Erna Björt er jafngömul henni, þær eru báðar fæddar 2002, og hafa þær núna spilað mjög lengi saman. Tengingin á milli þeirra í sóknarleiknum er afar góð og gætu þær reynst varnarmönnum Lengjudeildarinnar erfiðar í sumar.
Gaman að fylgjast með: Nadía Steinunn Elíasdóttir
Stelpa fædd árið 2010 sem hefur verið að fá svolítið mikið af tækifærum í vetur. Hún hefur verið að nýta þau býsna vel en hún skoraði þrjú mörk í sjö leikjum í Lengjubikarnum. Hún hefur skorað mikið í yngri flokkum og þarna er Skagaliðið að fá spennandi leikmann upp. Sunna Rún Sigurðardóttir er þá auðvitað leikmaður sem ber að hafa augun á í leikjum sumarsins. Hún er fædd árið 2008 og er komin með mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Hún er systir Arnórs Sigurðssonar, leikmanns Malmö og íslenska landsliðsins, og er mjög svo efnileg.
Komnar:
Elizabeth Bueckers frá Ítalíu
Ísabel Jasmín Almarsdóttir frá Grindavík
Lára Ósk Albertsdóttir frá Vestra
Sigrún Eva Sigurðardóttir frá Aftureldingu
Tera Viktorsdóttir frá KH
Farnar:
Hanne Hellinx til Belgíu
Fleiri lið en við sem hafa trú á okkur
Skarphéðinn Magnússon, þjálfari ÍA, svaraði spurningum Fótbolta.net eftir að í ljós kom hvar Skagakonum væri spáð.
Hvað finnst ykkur um þessa spá. Kemur hún á óvart?
„Já og nei. Miðað við gengi liðsins í vetur kemur þetta mér ekki á óvart, enda erum við með hörkugott lið. En það eru fleiri öflug lið með okkur í deildinni. Það sem ég tek úr þessu er að það eru fleiri lið en við sem hafa trú á okkur."
Hvernig meturðu síðasta tímabil hjá liðinu?
„Við vorum nýliðar á síðasta tímabili og stóðum okkur nokkuð vel. Á tímabili áttum við jafnvel möguleika á að fara upp um deild. Við náðum betri árangri en flestir höfðu búist við, þar sem okkur var spáð 9. sæti fyrir tímabilið, en enduðum í því fimmta. Heilt yfir vorum við ánægð með síðasta tímabil og ætlum að byggja ofan á þann árangur."
Hvernig hefur undirbúningstímabilið gengið hjá ykkur?
„Eins og ég nefndi áðan hefur gengið nokkuð vel; við unnum alla leiki í Lengjubikarnum og stóðum okkur vel í æfingaleikjum. Stelpurnar hafa æft mjög vel og við förum inn í mótið með mikla trú á verkefninu, því þær vita hvað í þeim býr. En vetrarmót er einungis undirbúningur – alvaran hefst 3. maí og þá gerum við ráð fyrir að stelpurnar séu klárar í verkefnið."
„Allt í kringum liðið hefur verið mjög jákvætt. Til að setja punktinn yfir i-ið erum við að taka í notkun eina glæsilegustu aðstöðu landsins. Stelpurnar hafa allt sem þær þurfa hér á Skaganum."
Eru miklar breytingar frá síðasta tímabili? Ertu sáttur með það hvernig hefur gengið að styrkja liðið?"
„Það hafa orðið nokkrar breytingar á leikmannahópnum hjá okkur. Við missum Birnu Rún, Kolfinnu og Lilju vegna meiðsla, sem koma í veg fyrir að þær verði með okkur í sumar. Fyrirliðinn okkar, Bryndís Rún, ætlar að fjölga mannkyninu og verður því ekki með okkur inni á vellinum, en hún mætir á allar æfingar og sýnir með því hversu mikill karakter hún er. Hún er gríðarlega mikilvæg fyrir liðið, bæði innan vallar og utan."
„Félagið hefur þó brugðist vel við. Madison og Kilil halda áfram með okkur frá síðasta sumri og við bætum við einum erlendum leikmanni til viðbótar. Þá er einnig gott að búa á Akranesi, þar sem við höfum fengið tvær öflugar leikmenn sem hafa flutt hingað upp á Skaga – þær Ísabel Jasmín og Láru Ósk. Einnig erum við afar glöð að fá Sigrúnu Evu aftur heim á Skagann."
„Við erum með fjölda ungra og efnilegra leikmanna sem hafa stigið upp í vetur. Hópurinn samanstendur af leikmönnum með mikið Skagahjarta og eins og staðan er í dag erum við mjög ánægð með hópinn."
Sumarið er að byrja. Hvernig býst þú við því að þessi deild muni spilast? Hver eru ykkar markmið?
„Ég tel að deildin verði svipuð og í fyrra – jöfn og skemmtileg. Öll lið geta unnið hvert annað, þannig að við þurfum að mæta klárar til leiks í hverjum einasta leik og vera tilbúnar að berjast fyrir okkar. Markmiðin okkar eru skýr: að gera betur en á síðasta ári. Við ætlum að taka einn leik í einu og sjá hvert það leiðir okkur."
Eitthvað sem þú vilt bæta við að lokum?
„Eins og flest lið viljum við hvetja fólk til að mæta og styðja stelpurnar áfram. Það var frábær mæting á leiki hjá okkur á síðasta tímabili og okkur langar að sjá það halda áfram í sumar. Ég get lofað góðu veðri í öllum heimaleikjum – og hörkuleikjum á vellinum."
Fyrstu þrír leikir ÍA:
3. maí, Fylkir - ÍA (tekk VÖLLURINN)
8. maí, ÍA - Afturelding (Akraneshöllin)
17. maí, Grindavík/Njarðvík - ÍA (JBÓ völlurinn)
Athugasemdir